Hraunbreiðan 9,1 ferkílómetri

Um klukkan 20 í kvöld dró mjög úr þeim óróa sem hefur mælst á gossvæðinu við norðanverðan Vatnajökul í allan dag. Martin Hensch, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is í kvöld að það sé of snemmt að segja nokkuð til um það hvort óróinn muni aftur færast í aukana.

Óró­inn mældist við Dyngju­háls norðan við Vatna­jök­ul. Að sögn Martins liggur ekki fyrir hvað olli þessum aukna óróa. Mögulega hefur grunnvatn komist í snertingu við kviku í gegnum sprungur djúpt á gossvæðinu, en óróann er ekki að rekja til þess að gos hafi hafist undir Dyngjujökli.

Vegna óróans í dag hafði samhæfingastöðin í Skógarhlíð samband við vísindamenn og aðra sem voru á svæðinu og voru þeir beðnir um að koma sér í öruggt skjól, en um varúðarráðstöfun var að ræða. Búast má við að staðan verði endurmetin í fyrramálið

Hann segir að skjálftavirknin sé áfram svipuð. Sjálfvirka kerfi Veðurstofunnar hefur mælt um 400 jarðskjálfta frá miðnætti. Flestir þeirra hafa mælst norður af kvikuganginum, þ.e. á milli Holuhrauns og Dyngjujökuls. 

Um kl. þrjú í nótt mældist skjálfti að stærð 5,5 norðan­til í Bárðarbungu­öskj­unni. Skjálfti að stærðinni 3,8 varð kl. 10:35 í morgun í Bárðarbungu en síðan þá hefur enginn skjálfti mælst sem er stærri en þrír. Martin tekur fram að erfitt sé að spá fyrir um framhaldið, þ.e. hvaða þetta nákvæmlega þýði.

TF-SIF. flugvél Landhelgisgæslunnar, flaug yfir gosstöðvarnar í dag og samkvæmt nýjustu mælingum er nú 9,1 ferkílómetra stórt svæði þakið hrauni sem hefur komið upp úr eldgosinu í Holuhrauni

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert