Máli hjúkrunarfræðings frestað vegna gagnaöflunar

mbl.is/Eggert

Fyrirtaka fór fram í morgun í máli hjúkrunarfræðings og Landspítalans sem ríkissaksóknari hefur ákært fyrir manndráp af gáleysi. Lögmaður hjúkrunarfræðingsins óskaði við fyrirtökuna eftir frekari gögnum sem verið er að afla, samkvæmt upplýsingum frá ríkissaksóknara. Var málinu því frestað.

Lögmaður hjúkrunarfræðingsins óskaði m.a. eftir upplýsingum úr sjúkraskýrslum og öðrum læknisfræðilegum gögnum. Þá beindi dómari því til lögmanns Landspítalans að forstjóri sjúkrahússins þyrfti að taka afstöðu til sakarefnisins fyrir hönd LSH. Sú tillaga var lögð fram að það yrði gert í næsta þinghaldi.

Engin dagsetning var ákveðin varðandi næstu fyrirtöku en hún verður ákveðin utan réttar eftir að umbeðin gögn berast ríkissaksóknara.

 Aðalmeðferð málsins mun hins vegar ekki fara fram fyrr en á næsta ári.

Málið var þingfest 24. júní sl. Þar lýsti hjúkrunarfræðingurinn yfir sakleysi sínu og slíkt hið sama gerði lögmaður Landspítalans fyrir hönd sjúkrahússins. 

Sam­kvæmt ákæru láðist hjúkr­un­ar­fræðingn­um að tæma loft úr kraga bark­ar­auf­ar­rennu þegar hún tók karl­mann úr önd­un­ar­vél og setti tal­ventil á bark­ar­auf­ar­renn­una. Af­leiðing­ar þess urðu þær að maður­inn gat ein­ung­is andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súr­efn­is­mett­un og blóðþrýst­ingi og hann lést skömmu síðar.

Í ákær­unni seg­ir að kon­an hafi verið á kvöld­vakt á gjör­gæslu­deild sem hún hafi unnið í beinu fram­haldi af dagvakt miðviku­dag­inn 3. októ­ber 2012. Þá seg­ir að kon­unni hafi verið vel kunn­ugt um að henni bar að tæma loftið úr krag­an­um, líkt og vinnu­lýs­ing um notk­un tal­ventils­ins kvað á um.

„Þegar ákærða kom á um­rædda kvöld­vakt og tók við umönn­un Y fram­kvæmdi hún ekki ör­ygg­is­eft­ir­lit á vakt­ara (monitor) sem mæl­ir súr­efn­is­mett­un í blóði, en ákærða veitti því ekki at­hygli að slökkt var á ör­ygg­is­hljóði vakt­ar­ans, sem ella hefði gefið til kynna þegar Y fór að falla í súr­efn­is­mett­un. Nefnt eft­ir­lit var hluti af starfs­skyld­um ákærðu sam­kvæmt verklags­regl­um spít­al­ans sem ákærða þekkti vel til.

Ákærða fór að aðstoða við umönn­un ann­ars sjúk­lings í samliggj­andi sjúkra­stofu strax eft­ir að hún hafði sett Y á tal­ventil og fylgd­ist ekki með því hvort hann gæti andað frá sér lofti um munn og nef líkt og nauðsyn­legt var og vinnu­lýs­ing um notk­un tal­ventils­ins, sem henni bar að kynna sér, mæl­ir fyr­ir um. Þá lét ákærða þann hjúkr­un­ar­fræðing sem eft­ir varð á stof­unni með Y ekki vita að hún hefði sett hann á tal­ventil. Þessi van­ræksla ákærðu stuðlaði enn frek­ar að því að manns­bani hlaust af gá­leysi henn­ar,“ seg­ir í ákær­unni.

Fjór­ar einka­rétt­ar­kröf­ur eru í mál­inu, miska­bóta og vegna út­far­ar­kostnaðar. Þær nema sam­tals tæp­lega 14,5 millj­ón­um króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert