Sölusíða með vímuefni hýst á Íslandi

Silkroad
Silkroad

Fyrr á árinu lokaði bandaríska alríkislögreglan, FBI, vefsíðunni Silkroad með aðstoð íslenskra lögregluyfirvalda en síðan var hýst á íslenskum netþjónum. Vefsíðan var einskonar markaðstorg sem fíkniefnasalar gátu notað til að auglýsa vöru sína og komast í samband við neytendur. Einnig voru ýmsar aðrar löglegar sem og ólöglegar vörur til sölu á síðunni en vefurinn mun ekki hafa verið kallaður eBay fyrir vímuefni að ástæðulausu.

Í nóvember fara fram réttarhöld í New York yfir Ross Ulbricht sem sagður er maðurinn á bakvið Silkroad. Ulbricht heldur fram sakleysi sínu og telur jafnframt að alríkislögreglan hafi brotið á rétti hans samkvæmt fjórðu stjórnarskrárbreytingu Bandaríkjanna um friðhelgi einkalífsins. Vegna þeirra ásakana gaf ákæruvaldið upp fyrr í dag hvernig staðið hefði verið að yfirtöku á netþjónunum og upplýsti meðal annars að íslensk lögregluyfirvöld hefðu leikið þar lykilhlutverk. Samkvæmt Forbes sá lögreglan rannsakendum fyrir gögnum um umferð á vefnum auk gagnagrunna um auglýsingar frá söluaðilum, skrám yfir viðskipti sem og einkaskilaboðum milli notenda síðunnar. 

Flestir sérfræðingar virðast sammála um að ólíklegt sé að dómari fallist á kröfu Ulbricht um að sönnunargögnin verði útilokuð. Hann hefur áður farið fram á að kærurnar gegn honum falli niður á þeim grundvelli að ekki sé hægt að tala um peningaþvott þegar rafræni gjaldmiðillinn Bitcoin á í hlut og á þeim grundvelli að ekki sé hægt að kæra hann fyrir sölu vímuefna fyrir það eitt að sjá um vefsíðuna. Þeim kröfum var hafnað í júlí.

Frétt mbl.is: Ísland ekki öruggt skjól

Frétt mbl.is: Vefsíðan Silkroad tekin niður

mbl.is