Hólmarar fá ristilspeglun í boði Lions

Lionsmenn í Stykkishólmi á hinni árlegu bæjarhátíð Dönskum dögum, en …
Lionsmenn í Stykkishólmi á hinni árlegu bæjarhátíð Dönskum dögum, en þeir eru þar með uppboð á ýmsum munum. mbl.is/Gunnlaugur

Öllum íbúum Stykkishólms og Helgafellssveitar, sem eru 55 ára á árinu, er boðið upp á ókeypis ristilspeglun. Um er að ræða samstarfsverkefni Lionsklúbbs Stykkishólms, Lionsklúbbsins Hörpu og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og mun það standa yfir næstu fimm árin. Í ár fengu því allir íbúar svæðisins, sem eru fæddir árið 1959 boð um skoðun, á næsta ári fólk fætt 1960 og svo framvegis. Um 15 íbúum svæðisins mun standa þetta til boða á ári hverju „Fólk skráir sig hjá Heilsugæslunni og við borgum fyrir skoðunina,“ segir Gunnlaugur Auðun Árnason, Lionsmaður í Stykkishólmi.

Spurður hvers vegna fólk á þessum tiltekna aldri fái þetta tilboð segir hann það vera vegna þess að sjúkdómurinn komi gjarnan upp á þessum aldri. „Samkvæmt upplýsingum frá læknum er þá oft komin fram byrjun á honum. Sjúkdómurinn hefur langa meðgöngu og með því að skoða fólk snemma greinist hann fyrr. Á milli 120 og 130 Íslendingar látast úr ristilkrabbameini á hverju ári og það mætti koma í veg fyrir hluta þeirra dauðsfalla með skimun.“

Lúmskur gestur

Á vefsíðu Krabbameinsfélagsins segir að krabbamein í ristli og endaþarmi sé eitt algengasta krabbameinið hér á landi, um 7% illkynja æxla. Þau eru meðal tíðustu krabbameina sem greinast hjá vestrænum þjóðum og þriðja algengasta dánarorsök hjá krabbameinssjúklingum á Íslandi. Með skimun sé hægt að lækka bæði nýgengi og dánartíðni. Þar segir líka að ristilkrabbamein sé gjarnan kallað „lúmskur gestur“, sjúkdómurinn vaxi hægt og til að byrja með séu engin einkenni.

Húsvíkingar fyrirmynd

Sjúkdómurinn er meira í ákveðnum ættum, meðalaldur við greiningu er um 70 ár og afar fáir greinast ungir. Á hverju ári greinast um 100 Íslendingar með ristilkrabbamein og 30-40 með krabbamein í endaþarmi. Um 1.000 manns, sem hafa fengið þessi krabbamein eru á lífi hér á landi. Einkennin eru fjölþætt samkvæmt vefsíðu Krabbameinsfélagsins, en þau helstu eru þreyta, breyttar hægðavenjur og uppþemba.

Gunnlaugur segir fyrirmyndina að verkefninu sótta til Lionsklúbbs Húsavíkur. „Okkur leist vel á hugmyndina, að við gætum gert gagn með þessum hætti. Þetta er nokkuð ólíkt þeim verkefnum sem við höfum unnið að áður, þetta er fyrsta verkefnið sem tekur yfir svona langt tímabil,“ segir Gunnlaugur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert