Gætu þurft að bera vitni

Silkroad
Silkroad

Talsvert er um að erlend lögregluyfirvöld óski eftir aðstoð við að hafa uppi á upplýsingum tengdum vefhýsingum hér á landi vegna refsiverðrar hegðunar á veraldarvefnum að sögn Friðriks Smára Björgvinssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lék lykilhlutverk í lokun bandarísku alríkislögreglunnar FBI á vefsíðunni Silkroad þar sem fíkniefni voru seld í stórum stíl en síðan var hýst hér á landi. Friðrik segir málinu lokið af hálfu LHR þó svo að enn geti komið til þess að fulltrúar íslenskrar lögreglu verði kallaðir til sem vitni við réttarhöld í málinu. 

Réttarhöld yfir Ross Ul­bricht sem handtekin var í kjölfar rannsóknarinnar hefjast brátt í New York en hann er sakaður um að vera stofnandi og stjórnandi síðunnar sem gekk undir leyninafninu Dread Pirate Roberts.

Íslensku gögnin hulin leynd

Verjendur Ulbricht hafa farið fram á að saksóknara verði meinað að nota ýmis sönnunargögn, þar á meðal þau sem íslensk lögregluyfirvöld létu FBI í té, á þeim grundvelli að brotið hefði verið á friðhelgi einkalífs Ulbricht. Lögfræðingarnir sögðu gögn um aðgerðir FBI gagnvart íslensku netþjónunum einnig „hulin leynd“ og því gaf ákæruvaldið út skýrslu í gær um hvernig hvernig staðið var að upplýsingasöfnun og yfirtöku á síðunni.

Friðrik segir aðgerðir á vegum LRH hafa staðið yfir með hléum um sjö til átta mánaða skeið þar til Silkroad var tekin niður í október 2013 og að fjórir til sex starfsmenn hafi komið að verkinu á hverjum tíma.

 „Í tilviki Silkroad var réttarbeiðnin grundvölluð á  MLAT-samningi (innsk. Mutual Legal Assistance Treaty) sem byggist á alþjóðasamþykktum en rannsóknin varðaði háttsemi sem er einnig refsiverð samkvæmt íslenskum lögum,“ segir hann og tekur fram að allar aðgerðir hafi verið framkvæmdar á grundvelli dómsúrskurða. Friðrik segir beiðnirnar hafa borist í gegnum innanríkisráðuneytið og að embætti ríkissaksóknara hafi einnig haft aðkomu að málinu. 

Íslensk lögregla í lykilhlutverki

„Ísland ekki öruggt skjól“ 

Vefsíðan Silkroad tekin niður

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert