„Snautlegt að vera afgreiddir svona“

Makrílveiðar.
Makrílveiðar. Sigurður Bogi Sævarsson

„Það er frekar snautlegt að vera afgreiddir svona,“ segir Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, um ummæli Sigurðar Inga Jóhannessonar, sjávarútvegsráðherra, í Morgunblaðinu í dag. „Við teljum, eins og staðan er í dag, að það sé gríðarleg ábyrgð sem ráðherra tekur á sig með að heimila ekki meiri veiði.“

Ákvörðun Sigurðar Inga um að stöðva veiðar smá­báta á makríl í síðustu viku þegar afla­há­marki þeirra var náð hef­ur sætt nokk­urri gagn­rýni. Í Morgunblaðinu í dag sagðist Sigurður Ingi hvergi ætla að hvika frá ákvörðun sinni„Ég skil rökin fyrir þessum kröfum smábátasjómanna þegar fiskurinn er víða við landið, tæki og tól eru til veiðanna og vissulega felst verðmæta- og atvinnusköpun í þessum veiðum,“ sagði ráðherra og bætti síðar við: „ Undirstaðan er sjálfbærni og ábyrgar veiðar og þar dugar ekki að vera með hentistefnu.

Örn segir smábátasjómenn ekki vilja því brennimarki settir að þeir reki einhverja hentistefnu. „Allar okkar tillögur varðandi makríl eru vel ígrundaðar og ekki látnar fram án þess að skoða málin mjög vel. Við byggjum á nýlegum mælingum sem sýndu að 1,6 milljón tonn eru af markíl í íslenskri lögsögu, og kvótinn er ekki nema tíu prósent af því. Við höfum verið með menn á miðunum frá 1. júlí og byggjum einnig á þeirra frásögnum.“

Spurður um rannsóknir á makríl og hvort makríll sé hugsanlega að éta seiði annarra tegunda í miklum mæli, sagði Sigurður Ingi í Morgunblaðinu að einhver samkeppni væri um fæðuna, en ekki hefði verið sýnt fram á með rannsóknum að makríll æti seiði annarra tegunda í miklum mæli. Ekki væru vísindaleg rök fyrir því að auka veiðar sérstaklega þess vegna.

Örn segir alveg ljóst að það sé gríðarleg röskun á íslensku lífríki þegar þetta magn af makríl kemur inn í lögsöguna. „Hann þyngist um fjörutíu til sextíu prósent á því að éta hér. Og hann kemur hingað af því hér er næga fæðu að fá og hlýnandi sjór. Við viljum líka benda á að makríllinn hefur verið lengur við Færeyjar en Ísland og þar eru botnfiskstofnar í rúst. Þetta er því grafalvarlegur hlutur og það er á þeirri slóð sem smábátarnir eru að veiða þar sem lífríkið er hvað viðkvæmast.“

Að lokum segir Örn að smábátasjómenn mótmæli því harðlega að þeir byggi á hentistefnu því hún sé mjög vel ígrunduð. „Og við erum mjög svekktir yfir því að ráðherra skuli ekki heimila áframhaldandi veiðar.“

Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda.
Sigurður Ingi Jóhansson ráðherra
Sigurður Ingi Jóhansson ráðherra Sigurður Bogi Sævarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert