Áður komið upp órói við Gunnuhver

Gunnuhver.
Gunnuhver. Víkurfréttir/Hilmar Bragi

„Það veit enginn fyrir víst hvað er að gerast annað en það að það er eðli svona leirhvera að breytast. Helst er útlit fyrir að vökvinn og hitinn í iðrum jarðar hafi fundið sér nýja leið upp. Þetta er þekkt í Krísuvík og fleiri stöðum,“ segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS orku um aukna virkni sem hlaupin er í Gunnuhver.

Eyðilagði akveg og göngupalla

 Gunnuhver er staðsettur rétt austan við Reykjanesvita. Um er að ræða mikið háhitasvæði á flekamótum Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans.  Um hríð hefur vökvi og hiti leitað úr auðlindinni upp á yfirborðið í gegnum hverina. Áður hefur komið upp órói á vegna breytinga í jörð. Á árið 2006 hljóp mikill hamagangur í svæðið sem stækkaði mikið og eyðilagði akveg og göngupalla. 

Ásgeir segir ekki útlit fyrir að starfsemi HS orku hafi áhrif á þær hræringar sem eiga sér stað í hvernum. „Við teljum að þetta sé ósköp eðlilegt. Auðvitað gætu jarðskjálftar hafa breytt einhverju en við teljum ekki að vinnslan á svæðinu hafi nein áhrif á þetta,“ segir Ásgeir. 

Ekki komið til að vera 

Hann segir að vel sé fylgst með framþróun málsins og að vísindamenn kanni svæðið. Heilbrigðiseftirliti og lögreglu var gert viðvart um leið og óróans varð vart. Þegar hafa breytingar orðið á svæðinu frá því í morgun.  

Hann segist síður eiga von á því að breytilegt ástand í hvernum sé komið til að vera. „Svona breytingar eru tiltölulega tímabundnar. Yfirleitt jafna svona breytingar sig með tímanum og við erum alveg rólegir yfir þessu,“ segir Ásgeir.

Búið að aflétta lokun

Almannavarnarnefnd Grindavíkur hefur ákveðið að aflétta lokun umhverfis hverinn. Fólki er því frjálst að fara aftur á útsýnispall sem liggur nærri hvernum. Nokkur umferð ferðafólks hefur legið þangað í dag til þess að skoða umbrotin. 

mbl.is