Krefjast tryggingar fyrir farminn

Akrafellið á leið til Reyðarfjarðar.
Akrafellið á leið til Reyðarfjarðar. Ljósmynd/Kristinn Þór Jónasson

Þeir sem komu að björgunarstörfum og krefjast björgunarlauna fyrir að ná Akrafelli af strandstað heimila ekki að farmur skipsins verði afhentur nema fyrir liggi tryggingar eigenda.

Enn er verið að meta það hvort Akrafellið sé ónýtt eftir að skipið strandaði und­an Vatt­ar­nesi 6. sept­em­ber sl. en það ligg­ur nú bundið við bryggju á Reyðarf­irði þar sem það bíður ör­laga sinna.

Skipið verði selt í núverandi ástandi

Pálm­ar Óli Magnús­son, for­stjóri Sam­skipa, seg­ir í sam­tali við mbl.is, að enn sé ekki búð að meta tjónið. Hann vill ekki fullyrða um það hvenær slíkt muni liggja fyrir. Tryggingarfélögin séu að leita til ólíkra aðila um kostnað við viðgerð á skipinu og þá hvort að það muni svara kostnaði að gera við það. Öðrum kosti verður skipið selt í því ástandi sem það er. 

Farmur skipsins var frosið sjáv­ar­fang og al­menn­ar út­flutn­ings­vör­ur, s.s. þurr­vara en búið er að flytja hann allan á Mjóeyri. Þar bíður hann þess að farmeigendur klári að skoða hann. „Einhverjir eru búnir að gera það og einhverjir eru ekki búnir,” segir Pálmar.

Farmeigendur meta tjónið 

Hann gefur ekki upp endingartíma farmsins en segir um sé að ræða ólíka vöru. „Frystivaran er á frystigámatenglum en við teljum að allt sé í góðu með hana,” segir Pálmar. Hann segir að farmeigendur meti nú hver fyrir sig hvort tjón hafi orðið á markaðsvirði farmsins.

Trygg­inga­fé­lög allra hags­munaaðila lýstu yfir sam­eig­in­legu sjótjóni 12 september. Síðan hafa komið fram kröfur þeirra sem komu að björgun skipsins. Auk Landhelgisgæslunnar og björgunarsveita, hafa aðilar á borð við eigendur skipsins Aðalsteins Jónssonar, sem dró Akrafellið til hafnar, tæknimenn, rafsuðumenn, kafarar og sérfræðingar erlendis frá sem unnu að björgun aðalvélarinnar, gert kröfu til björgunarlauna.  

Ferja hluta farmsins í kvöld 

 „Þessir aðilar hafa gert okkur skýrt að þeir heimila ekki að farmurinn verði afhentur nema að þeir sem eigi þessa vöru séu tilbúnir að leggja fram tilhlítandi tryggingar,” segir Pálmar.

Að sögn Pálmars mun skipið Horst B. sem tók við siglingum Akrafells mun sækja þann farm sem búið er að reiða fram tryggingu fyrir í kvöld. 

Að sögn hans er áhöfn skipsins enn á landinu en eins og fram hefur komið sofnaði stýrimaður skipsins undir stýri. Máli hans lauk á föstu­dag fyrir viku með viður­laga­ákvörðun, en maður­inn samþykkti í Héraðsdómi Aust­ur­lands að greiða 700.000 krón­ur í sekt.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert