Ísland hætti að nota jarðefnaeldsneyti

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hvetur þjóðir heims til að ganga til liðs við alheimsbandalag á sviði jarðhitanýtingar. Þá tilkynnti hann í dag um stuðning íslenskra stjórnvalda til sérstakrar jarðhitaáætlunar sem er unnin í samvinnu við Alþjóðabankann.

Þetta kom fram í ræðu sem Sigmundur flutti á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna um loftlagsmál, en fundurinn fór fram í New York. Þar fór hann yfir áherslur Íslands í loftlagsmálum. Hann sagði m.a. í upphafi ræðu sinnar, að stefnt sé að því að Ísland muni hætta að nota jarðefnaeldsneyti og einblínt verði á endurnýjanlega orkugjafa í framtíðinni. Sú vinna sé þegar hafin.

Fram kemur í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu , að Sigmundur Davíð hafi ennfremur tilkynnt um stuðning Íslands við átakið „Endurnýjanleg orka fyrir alla“ sem aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur beitt sér fyrir, sem og að metnaðarfullur og bindandi loftslagssamningur náist í París á næsta ári.

Sigmundur Davíð áréttaði ennfremur mikilvægi þess að sporna gegn súrnun sjávar og minnti á þróun mála á norðurslóðum sökum hlýnunar loftslags. Þá fjallaði ráðherra um mikilvægi þess að kraftar ólíkra hópa fólks og beggja kynja  séu nýttir í baráttunni gegn neikvæðum loftslagsbreytingum.

Á morgun mun forsætisráðherra taka þátt í setningu allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og flytja erindi á ársfundi Íslensk – ameríska verslunarráðsins um samskipti Íslands og Bandaríkjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina