Kalla eftir fríverslun við Japan

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

Tillaga til þingsályktunar um að hafinn verði undirbúningur fyrir fríverslunarviðræður við Japan hefur verið lögð fram á Alþingi. Að tillögunni standa átta þingmenn Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokksins, Bjartrar framtíðar og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Fyrsti flutningsmaður er Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi utanríkisráðherra. Hliðstæð tillaga var lögð fram í byrjun ársins en náði ekki fram að ganga.

Fram kemur í þingsályktuninni að ríkisstjórninni verði falið „að hefja undirbúning fríverslunarsamnings við Japan á grundvelli yfirlýsinga japönsku ríkisstjórnarinnar um að auka hlut fríverslunar í milliríkjaviðskiptum.“ Vísað er til þess að núverandi ríkisstjórn Japans leggi aukna áherslu á fríverslun við önnur ríki og líti meðal annars á nánari tengsl við aðildarríki Atlantshafsbandalagsins (NATO) sem lið í öryggisstefnu landsins. Umtalsverð viðskipti séu á milli Íslands og Japans. Útflutningur til Japans á siðasta ári hafi numið um 11,5 milljarði króna. Að stærstu leyti sjávarafurðir. Innflutningur frá Japan hafi á sama tíma numið 8,5 milljörðum.

Vakin er athygli á því að Japan hafi þegar 14 fríverslunarsamninga. Meðal annars við Sviss. Ennfremur standi yfir viðræður við Evrópusambandið. „Af sjónarhóli íslenskra hagsmuna er því brýnt að Ísland hefji fyrr en seinna viðræður um fríverslun við Japan til að halda samkeppnisstöðu sinni. Einu gildir hvort ríkisstjórnin beitir sér fyrir því að fríverslun við Japan verði tryggð fyrir atbeina EFTA eða ráðist verði í gerð tvíhliða samnings milli ríkjanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert