Skipstjóri skipsins brást rétt við

Hér má sjá varðskipið Þór og flutningaskipið Green Freezer á …
Hér má sjá varðskipið Þór og flutningaskipið Green Freezer á leið að bryggju á sunnudaginn. Mbl.is/Albert Kemp

Viðbrögð skipstjóra og vélstjóra flutningaskipsins Green Freezer voru eðlileg þegar bilun kom upp í skipinu sl. miðvikudagskvöld. Ekki var um vanrækslu að ræða og er rannsókn lögreglu á málinu lokið. Þetta kom fram á fundi lögreglu á Eskifirði í gær.

Skipið strandaði um áttaleytið þegar það var á leið inn Fáskrúðsfjörð. Ferðinni var heitið að Loðnuvinnslunni hf. að sækja afla, en skipið hafði áður komið við í Reykjavík, í Vestmannaeyjum og átti það eftir að koma við í tveimur til þremur höfnum á Austfjörðum.

Áhöfn skipsins beið eftir hafnsögumanni og var hann nýkominn um borð þegar skipið fer skyndilega á fulla ferð aftur á bak. Áður hafði komið fram að skipið hefði farið einn hring í firðinum á meðan það beið eftir hafnsögumanninum, en það er ekki rétt að sögn Jónasar Wilhelmssonar Jensen, yfirlögregluþjóns á Eskifirði.

Lögregla ræddi við skipstjóra og vélstjóra Green Freezer á fundinum í gær. Einnig var farið yfir gögn vegna málsins, meðal annars frá Vaktstöð siglinga og skýrslur skipstjóra og vélstjóra. Ekki liggur fyrir hvað bilaði en ljóst er að bilun varð sem ekki virðist hafa verið hægt að ráða við.

Að sögn Jónasar er rannsókn lögreglu á málinu lokið og þykir ekki ástæða til frekari aðgerða lögreglu.

Skip frá Nesskipum sigldi inn Fáskrúðsfjörð nú fyrir skömmu en það á að sækja farm til Loðnuvinnslunnar hf. sem Green Freezer átti að sækja. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert