„Engum verður vísað frá“

Húsið sem mun hýsa gistiskýlið stendur við Lindargötu 48.
Húsið sem mun hýsa gistiskýlið stendur við Lindargötu 48. Ómar Óskarsson

„Nú er allt kapp lagt á að hægt verði að opna fyrir miðjan október og ég á von á því að það standi,“ segir Sigtryggur Jónsson, framkvæmdarstjóri þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða, um gistiskýlið við Lindargötu.

Eins og mbl.is sagði frá í sumar stendur til að flytja starfssemi gisti­skýl­is­ins Far­sótt­ar­inn­ar frá Þing­holts­stræti á Lind­ar­götu. Farsóttarhúsið er gistiskýli fyrir heimilislausa reykvíska karlmenn.

Stóð til að gistiskýlið mynd opna um miðjan september en hafa framkvæmdirnar tekið lengri tíma en fyrst var áætlað. 

„Það er mikið vinna búin að fara þarna fram. Það komu upp ýmis óvænt mál upp. Til dæmis þurfti að jafna gólfið á fyrstu hæðinni og brjóta það upp. Þá kom í ljós 30 tonna klöpp sem þurfti að koma út,“ segir Sigtryggur.

Allt endurnýjað frá A til Ö

Að sögn Sigtryggar verður mikill munur á gistiskýlinu við Lindargötu og gamla Farsóttarhúsinu við Þingholtsstræti en húsið á Lindargötu hýsti áður vélsmiðju.

„Þetta er í fyrsta lagi miklu stærra í fermetrum og steinhús á meðan húsið í Þingholtsstræti er timburhús. Þar vantar upp á allt viðhald en á Lindargötu er búið að endurnýja allt frá A til Ö,“ segir Sigtryggur.

Í nýja gistiskýlinu er búið að endurnýja allar lagnir, mála allt, reisa nýja veggi, hurðir og fleira. Jafnframt verður lyfta í húsinu. „Þetta verður eins og fínasta gistiheimili,“ segir Sigtryggur.

Gistirýmið leyfir undanþágur

Gistiskýlið á Lindargötu mun hýsa jafnmarga og Farsóttarhúsið á Þingholtsstræti, tuttugu manns. „Munurinn er samt sá að rýmið leyfir undanþágur. Ef það sækja fleiri en tuttugu að, getum við tekið við þeim. Engum verður vísað frá.“

Sigtryggur segir að flutningarnir muni ekki trufla starfssemi Farsóttarhússins. „Á flutningadegi munu karlarnir fara út að morgni á Þingholtsstræti og svo inn á Lindargötunni um kvöldið.“

Aðspurður segir Sigtryggur að gestir Farsóttarhússins viti að flutningar standi til. „Ég veit nú ekki til þess að þeir hafi komið að skoða. En ég á ekki von á öðru en að þeir verði ánægðir.“

mbl.is