Vill kalla fyrir þrjú vitni

Vitnaleiðsla að beiðni lögmanns Hreiðars Más Sigurðssonar hefur verið tekin til úrskurðar en tekist var á um Chesterfield-málið svokallaða í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Farið var fram á að vitnin yrðu kölluð til vegna kröfu Hreiðars Más en hann vill að mál gegn honum, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni, er varðar lán haustið 2008, verði vísað frá dómi.

Vitnaleiðslan snýr að meintum símhlerunum en Hreiðar Már heldur því fram að starfsmenn embættis sérstaks saksóknara hafi brotið lög með því að hlusta á trúnaðarsamtöl sín og verjanda síns. Vitnin þrjú sem ákærði hyggst kalla fyrir eru þeir Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður sérstaks saksóknara, Bjarni Ólafur Ólafsson, núverandi starfsmaður embættisins og Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.

Í Chesterfield-mál­inu er ákært fyr­ir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Mana­gement Group S.A. og eign­ar­halds­fé­laga þeirra, sam­an­lagt 510 millj­ón­ir evra haustið 2008. Það jafn­gilti nærri 70 millj­örðum króna miðað við gengi evru 7. októ­ber 2008. Sér­stak­ur sak­sókn­ari tel­ur að féð sé allt tapað Kaupþingi. Hreiðar Már, Sigurður og Magnús hafa allir neitað sök í málinu.

Gert var ráð fyrr að málflutningur um frávísunarkröfuna stæði í tvö tíma en Björn Þorvaldsson, saksóknari, andmælti því að vitni yrðu leidd fyrir. Bar hann lögin fyrir sig og vísaði meðal annars í dóm Hæstaréttar máli sínu til stuðnings. Hann furðaði sig auk þess á því að einungis ætti að kalla fram þrjú vitni þegar ljóst væri að talsvert fleiri hefðu átt að koma að meintum símahlerunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert