Enn frekari uppstokkun hjá 365

365 miðlar
365 miðlar mbl.is/Ómar

Mikil óvissa ríkir á fréttastofu 365 miðla samkvæmt starfsmönnum fréttastofunnar sem mbl.is hefur náð tali af. Rúv greindi frá því fyrr í kvöld að Breka Logasyni, fréttastjóra Stöðvar 2, hafi verið sagt upp störfum í dag og að starf fréttastjóra fréttastofu Stöðvar 2 verði lagt niður.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur starfsmönnum fréttastofunnar ekki verið greint frá þessu, og kemur uppsögn Breka þeim í opna skjöldu. Starfsmenn hafa ekki verið upplýstir um næstu skref, en gefið hefur verið út að breytingar verði einnig gerðar á ritstjórninni.

Fram kemur í frétt Rúv að Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri og útgáfustjóri 365 miðla, hafi boðið Breka stöðu sem almennur fréttamaður, en ekki liggur fyrir hvort hann muni taka því.

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að Ellý Ármanns, ritstjóri Lífsins á Vísi, hafi einnig verið sagt upp störfum hjá 365 miðlum. Hún mun láta af störfum 1. október næstkomandi, eftir að hafa starfað hjá miðlinum í 9 ár.

Í frétt Viðskiptablaðsins segir jafnframt að fleiri starfsmenn hafi haldið á nýjar slóðir, en Friðrika Benónýsdóttir, menningarritstjóri Fréttablaðsins, Freyr Einarsson, yfirmaður sjónvarps og Stefán Hilmarsson, fjármálastjóri, hafa öll látið af störfum. 

Mik­il upp­stokk­un hef­ur átt sér stað á 365 miðlum að undanförnu eftir að Sævar Freyr Þráinsson tók við sem forstjóri og Kristín Þorsteinsdóttir gerðist útgáfustjóri. Þá var Mika­el Torfa­syni sagt upp störf­um sem aðal­rit­stjóra 365 miðla og lét Ólaf­ur Stephen­sen af störf­um sem rit­stjóri Frétta­blaðsins. Í kjölfarið var Sigurjón M. Egilsson ráðinn sem fréttaritstjóri.

Nýir stjórnendur hafa sagst vilja efla frétta­stof­una og sjálf­stæði henn­ar og auka hlut kvenna í frétta­skrif­um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert