Ekki víst að Markus hafi farið í sjóinn

Látrabjarg.
Látrabjarg. MWL

Eng­ar nýj­ar vís­bend­ing­ar hafa borist til lög­reglu um þýska ferðamann­inn Christian Mat­hi­as Markus sem hef­ur verið leitað und­an­farna daga við Látra­bjarg. Engin eiginleg leit fór fram í dag, en áframhaldandi rannsóknarvinna hefur átt sér stað hjá lögreglunni á Vestfjörðum.

Um 50 manns frá björg­un­ar­sveit­um Slysa­varna­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar leituðu Markus í gær, en ákveðið var að gera hlé á leitinni í dag þar sem hún hefur engan árangur borið.

Að sögn Davíðs Rún­ars Gunn­ars­son­ar, sem er í svæðis­stjórn björg­un­ar­sveita á Vest­fjörðum, hefur ekki gefist færi á því að leita á sjó, og mun líklega ekki gera það á næstu dögum samkvæmt veðurspá. Davíð segir að búið sé að kemba svæðið á landi mjög vel, en hann segir þó ekki víst að Markus hafi farið í sjóinn.

Lögregla hefur rannsakað málið í dag og reynt að finna upplýsingar um ferðir Markus og við hvern hann talaði dagana áður en hann hvarf. Einnig hefur lögregla verið í sambandi við fjölskyldu Markus sem hefur litlar upplýsingar getað gefið þar sem hann hafði ekki upplýst fjölskyldumeðlimi um ferð sína til Íslands. Markus hafði verið hér á landi í 5 daga þegar hann hvarf.

Síðast sást til Markus yf­ir­gefa hót­elið í Breiðuvík í Vest­ur­byggð þann 18. sept­em­ber sl. Hann var einn á ferð, ók bíla­leigu­bif­reið af gerðinni Suzuki Grand Vit­ara. Sú bif­reið fannst mann­laus á bif­reiðastæðinu við Látra­bjarg 23. sept­em­ber sl.

Ef ein­hver hef­ur orðið var við ferðir Markus þá ósk­ar lög­regl­an á Vest­fjörðum eft­ir þeim upp­lýs­ing­um í síma 450-3730 eða í síma 112.

Christian Mat­hi­as Markus
Christian Mat­hi­as Markus mynd/Lög­regl­an á Vest­fjörðum
mbl.is