Vinátta er vernd gegn einelti

Einelti getur verið dauðans alvara.
Einelti getur verið dauðans alvara. mbl.is/Árni Sæberg

Vanda Sigurgeirsdóttir, lektor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, leggur áherslu á að vinátta skipti miklu máli til að koma í veg fyrir einelti, margir eigi vissulega erfitt með að eignast vini en hægt sé að auka færni þeirra til þess.

Eins og gefur að skilja er erfitt að læra þegar barni líður illa. Vanda hefur haldið fjölda fyrirlestra um einelti fyrir foreldra grunnskóla og segir eina mikilvægustu forsendu þess að börn nái góðum árangri í skólanum sé að þeim líði vel. Því verði að skapa þær aðstæður; hún segir samvinnu skóla og heimila líklega bestu leiðina til að bæta líðan og námsárangur.

„Ef kennarar, starfsmenn skóla, félagsmiðstöðva og íþróttamannvirkja, þjálfarar og foreldrar samhæfa viðbrögð sín gegn einelti aukast líkurnar á æskilegum niðurstöðum töluvert,“ segir Vanda. Til að ná því takmarki þurfi allir fullorðnir að auka þekkingu sína á vandamálinu og hvernig best sé að taka á því.

Umræðan er áberandi, en vita allir hvað felst í þessu litla en þó hræðilega orði, einelti?

Vanda útskýrir það:

Einelti er neikvætt, langvarandi og endurtekin áreitni sem beinist gegn einum eða fleiri einstaklingum og hefur margþætt neikvæð áhrif á þá sem fyrir því verða. Einelti felur í sér valdaójafnvægi og misbeitingu á valdi.

Birtingarmyndir eineltis eru margar. Vanda nefnir þær algengustu: líkamlegt ofbeldi, eins og barsmíðar, spörk og hrindingar; munnlegt ofbeldi, þegar þolendur verða fyrir stríðni, uppnefni og niðurlægjandi athugasemdum; andlegt ofbeldi, þegar þolandinn er skilinn útundan, einangraður og þarf að þola svipbrigði, augnagotur, þögn eða algert afskiptaleysi.

Ögrandi eða hlédræg

Einelti fer oftast fram á skólatíma, innan veggja skólans eða utan hans, en þó við aðstæður þar sem erfitt er fyrir fullorðna að fylgjast með, segir Vanda. Skólalóðin er algengasti staðurinn.

Þau börn sem verða fyrir einelti eru yfirleitt á neðstu þrepum vinsældalistans, eins og Vanda orðar það: Annars vegar ögrandi börn, sem eru reyndar lítill hluti; börn sem eiga við námsörðugleika að stríða og hafa ekki mikla félagslega færni, en hins vegar hlédræg börn, sem svara oft áreitni með því að fara að gráta og draga sig til baka. Þau börn eru einmana og eiga fáa eða enga vini, eru með lélegt sjálfstraust og þora ekki að segja frá. Þess vegna bendir Vanda á hve vinátta er mikilvæg. Rannsóknir sýni að mjög mikilvægt sé fyrir andlega vellíðan barna að þau eigi vini, og hægt sé að kenna þeim vináttufærni og þjálfa í henni. Vinátta sé verndandi gegn einelti.

Vanda bendi á að það sé hvorki létt verk né löðurmannlegt að hjálpa börnum að finna og eignast vinni heldur töluverð vinna fyrir foreldra. „En þetta er vinna sem þið fáið margfalt til baka, kannski ekki í tímum talið en sannarlega í hamingjusamara barni. Þau börn sem bæta sig mest eru þau börn þar sem foreldrar ræða vandamálin við þau og vita hvernig á að hjálpa.“

Athyglisverð er sú ábending Vöndu að afleiðingar eineltis séu einnig mjög slæmar fyrir gerendur. Rannsóknir sýni að þeir sem leggi í einelti séu líklegri en aðrir til að lenda í áfengis- og vímuefnavanda og að verða sakfelldir fyrir glæpi. Auk þess séu þeir líklegri til að beita maka og börn ofbeldi.

Góð ráð til foreldra

1Talaðu við og hlustaðu á barnið þitt á hverjum degi Rannsóknir sýna að um helmingur barna sem verða fyrir einelti segir foreldrum sínum aldrei frá því. Börn skammast sín oft of mikið og vilja því ekki segja frá. Einnig finnst þeim stundum að enginn geti hjálpað þeim, ekki einu sinni foreldrar. Þá trúa sum því að eineltið verði verra ef þau segja frá

2 Komdu í skólann og í frímínútur Rannsóknir sýna að 67% eineltistilfella gerast þar sem fullorðnir eru ekki til staðar. Ef þú getur komið einu sinni í viku eða einu sinni í mánuði – eða jafnvel einu sinni á önn, þá getur það skipt máli.

3 Sýndu gott fordæmi með góðmennsku Börnin þín læra heilmikið um sambönd og samskipti með því að fylgjast með þér. Í hvert skipti sem þú talar við aðra manneskju – eða um aðra – á meiðandi eða svívirðandi hátt ertu að kenna barninu þínu að einelti sé í lagi.

4 Lærðu að þekkja einkennin

Ef þig grunar að verið sé að leggja barnið þitt í einelti ræddu þá við kennara barnsins eða finndu leið til að fylgjast með samskiptum barnsins við félagana til að fá það á hreint hvort grunsemdir þínar eru á rökum reistar.

5 Skapaðu heilbrigðar venjur/hegðun Byrjaðu strax í leikskóla að þjálfa barnið í hvað á ekki að gera, t.d. lemja, hrinda, ýta, stríða, vera vondur við aðra. Einnig – og jafnvel enn mikilvægara – er að kenna börnunum hvað á að gera: Að vera góð, samkennd með öðrum og að skiptast á og vera sanngjörn eru hæfileikar sem skipta miklu máli í öllum samskiptum við önnur börn.

6 Aðstoðaðu skóla barnsins Hvort sem barnið þitt hefur verið lagt í einelti eða ekki ættir þú að vita hvað skólinn gerir til að stöðva einelti. Rannsóknir sýna að aðferðir sem leggja áherslu á að byggja upp jákvæðan anda í skólanum skila bestum árangri.

7 Búðu til heimilisreglur um einelti Börnin þín þurfa að heyra það skýrt frá þér að það er ekki eðlilegt eða í lagi að þau leggi í einelti eða verði lögð í einelti. Ekki er heldur viðunandi að þau standi og horfi á þegar önnur börn eru lögð í einelti. Ef barnið þitt leggur í einelti getur þú hjálpað því að finna aðrar leiðir til að nota persónulegt vald sitt, stöðu og leiðtogahæfileika í skólanum. Síðan geturðu unnið með barninu, kennurum og skólastjóra að því að koma á góðmennsku-áætlun í skólanum.

8 Kenndu barninu þínu að vera góður áhorfandi Börn geta oft stoppað einelti með því að kalla: Hættu, þú ert að leggja í einelti! Flestir gerendur hætta á innan við 10 sekúndum ef einhver segir þeim að stoppa.

9Einelti á ekki að vera hluti af barnæskunni Sumir fullorðnir hika við að gera eitthvað þegar þeir sjá eða heyra um einelti. Það er mikilvægt fyrir alla að skilja að engin tegund af einelti (þar á meðal illgjarnar sögusagnir, útilokun úr hópi og rafrænt einelti) er eðlilegur hluti æskunnar. Það má ekki vera hluti af menningunni að eineltishegðun sé í raun eðlileg.

10 Vertu meðvitaður um félagslega stöðu barnanna Hvaða börn eru venjulega saman? Hvaða börn eru leiðtogar og hafa félagsleg áhrif? Hvaða börn eru félagslega veik? Hvaða börnum er ýtt til hliðar? Hægt er að hafa þetta í huga til dæmis þegar skipt er í hópa

Andlegt og líkamlegt

• Rannsóknir sýna að strákar beita frekar líkamlegu ofbeldi en stelpur andlegu.

• Aðferðir stelpnanna eru ekki eins sýnilegar. Þær skilja m.a. út undan, koma af stað kjaftasögum og tala illa um.

• Andlegt ofbeldi er ekki sársaukaminna en líkamlegt.

• Ef börn og unglingar eru spurð finnst þeim andlegt ofbeldi verra. Hvort tveggja er óþolandi ástand.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert