Veðurofsinn hefur áhrif á mælingar

Eldgosið í Holuhrauni.
Eldgosið í Holuhrauni. Rax / Ragnar Axelsson

Færri jarðskjálftar hafa mælst við gosstöðvarnar í Holuhrauni í dag en undanfarna daga og er það að öllum líkindum vegna hvassviðrisins sem gengur yfir landið. Frá miðnætti hafa 30 skjálftar verið staðsettir við Bárðarbungu og 15 í ganginum.

Kemur þetta fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands. Þar segir ennfremur að stærsti skjálftinn síðan á miðnætti hafi mælst 5,5 stig og varð hann við suðaustanverða öskju Bárðarbungu. Er þetta með stærri skjálftum sem mælst hafa við megineldstöðina frá upphafi jarðhræringanna um miðjan ágúst.

Hingað til hafa fjórir aðrir skjálftar mælst af stærð um 5,5 og einn til viðbótar hefur mælst enn stærri, eða 5,6 stig. Hafa nú alls 39 jarðskjálftar mælst af stærðinni 5,0 eða yfir.

„Þó skal hafa í huga að enn er verið að yfirfara stærðir stærstu skjálfta og gætu þessar tölur því breyst lítillega,“ segir í tilkynningu Veðurstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert