Hvar eru konurnar?

Dreifimiðar þar sem leitað er að stúlkum sem ekki hafa …
Dreifimiðar þar sem leitað er að stúlkum sem ekki hafa skilað sér í Krabbameinsleit.

„Hvar eru konurnar?“ er spurt í nýrri auglýsingu Krabbameinsfélags Íslands sem birtist í fyrsta sinn á skjám landsmanna í kvöld en í henni kemur fram að um 50% ungra kvenna mæti ekki í krabbameinsleit.

Auglýsingaherferðin er hluti af árlegu fjáröflunar-og árveknisátaki Krabbameinsfélagsins, kennt við Bleiku slaufuna, en í ár verður sérstök áhersla lögð á að hvetja ungar konur til að fara í leghálskrabbameinsleit. Um 100 íslenskar konur gáfu Krabbameinsfélaginu myndir af sér til að nota í átakið en auk þess sem myndirnar voru notaðar í sjónvarpsauglýsingunni prýða þær dreifimiða sem dreift verður víða um höfuðborgina á næstu dögum. Á annarri hlið miðana er gefið í skyn að stúlkan á myndinni sé týnd en á hinni hliðinni er lesandanum bent á að hvetja konurnar í umhverfi sínu til að mæta í krabbameinsleit. Númerið sem gefið er upp á miðunum, 540-1919, er númerið hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins.

600 konum bjargað

Í fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu kemur fram að um 45% kvenna sem boðið er að mæta til leitar hjá Leitarstöð Krabbameinsfélagsins mæti ekki innan tilskilins tíma og að þó svo að margar skili sér seint og um síðir séu alltof margar sem ekki mæti reglulega. 

Á kynningarfundi fyrir átakið upplýsti Kristján Oddsson að frá því að skipulögð leghálskrabbameinsleit hófst hér á landi fyrir 50 árum hefur dánartíðni minnkað um 90%. Áður fyrr hafi hinsvegar 84% kvenna á aldrinum 23 ára til 65 ára farið reglulega í slíka leit en að nú hafi sú tala lækkað niður í 64% sem sé mikið áhyggjuefni. 

1.800 konur greinast með afbrigðilegar frumumyndanir í leghálsi á ári hverju en þar af látast aðeins tvær. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Krabbameinsfélaginu væri sú tala í kringum 20 ef ekki væri boðið upp á leit hér á landi og eins er talið að Íslendingar hefðu misst 600 fleiri konur á þeim 50 árum sem leit hefur staðið til boða ef engin væri leitin.

Ætla að selja 50 þúsund slaufur

Á kynningarfundinum voru fyrstu Bleiku slaufur ársins afhentar. Að þessu sinni var slaufan afhent tveimur velunnurum Krabbameinsfélagsins, þeim Gunnari Erni Guðmundssyni og Mörthu Ernstsdóttur, þremur konum sem nýtt hafa sér þjónustu félagsins, þeim Dóru S. Júlíussen, Ólöfu Björk Jóhannsdóttur og Liselotte Widing og Jónu Ólafsdóttur starfsmanni Leitarstöðvarinnar. Við afhendinguna sagði Ragnheiður Haraldsdóttir forstjóri Krabbameinsfélagsins að valið á þessu fólki endurspeglaði þakklæti fyrir velvild og stuðning almennings í landinu við félagið auk þess að varpa ljósi á framlag velunnara til þeirrar þjónustu sem veitt er af hálfu félagsins.

Þetta er 15. árið sem átakið fer fram og eins og undanfarin ár er markmið Krabbameinsfélagsins að selja 50 þúsund slaufur. Haldin var hönnunarsamkeppni meðal íslenskra gullsmiða um hönnun Bleiku slaufunnar 2014 og var það hönnun Stefáns Boga Stefánssonar, hönnuðs og gull-silfursmiðs hjá gullsmiðjunni Metal design sem þótti skara fram úr. 

Frá afhendingu Bleiku slaufunnar í dag frá vinstri: Liselotte Widing, …
Frá afhendingu Bleiku slaufunnar í dag frá vinstri: Liselotte Widing, Dóra S. Júlíussen, Gunnar Örn Guðmundsson, Ragnheiður Haraldsdóttir, Jóna Ólafsdóttir, Martha Ernstsdóttur og Ólöf Björk Jóhannsdóttir. Krabbameinsfélagið
Bleika slaufan 2014 er hönnuð af Stefáni Boga Stefánssyni hönnuði …
Bleika slaufan 2014 er hönnuð af Stefáni Boga Stefánssyni hönnuði og gull-og silfursmið sem segir að hún hafi mjúka hringlaga lögun sem vísi til umhyggju og verndar og bleiki steinninn í enda slaufunnar sé sem lítil skínandi heillastjarna.
mbl.is