Sáu bleikan roða á himni

Enn gýs í Holuhrauni og hefur mengun af völdum gossins …
Enn gýs í Holuhrauni og hefur mengun af völdum gossins mælst í byggð. Rax / Ragnar Axelsson

„Við höfum ekki þurft að gera neinar breytingar á okkar starfi. Mengunin var mest í morgun áður en skólinn byrjaði,“ segir Sólveig Jónsdóttir, skólastjóri Reykjahlíðarskóla, í samtali við mbl.is en vísindamannaráð skoðaði í morgun mælagögn um mengum af völdum brennisteinstvíildis og mældust háir toppar í Mývatnssveit í nótt og í morgun.

Var hæsti 10 mínútna toppur um 5.800 míkrógrömm sem er langt yfir hættumörkum. Vegna þessa var fólk á svæðinu hvatt til að halda sig innandyra, loka gluggum, auka kyndingu í húsum sínum og slökkva á loftræstingu.

Aðspurð segir Sólveg þá mengun sem stafað hefur af eldgosinu í Holuhrauni að undanförnu lítil áhrif hafa haft á skólastarf Reykjahlíðarskóla. Hafa skólastjórnendur einungis einu sinni þurft að grípa til þess ráðs að fella niður sundkennslu í útisundlaug og halda nemendum innandyra. 

„Við fylgjumst hins vegar mjög vel með og ef mikil mengun mælist þá hleypum við þeim ekki út,“ segir hún. Spurð hvort greina megi sýnilega mengun á svæðinu nú kveður Sólveig já við. „Í morgun mátti sjá svolítið bleikan roða í kringum fjöll og á himni.“
Í tilkynningu Veðurstofu Íslands frá því fyrr í dag voru þeir sem finna fyrir óþægindum hvattir til þess að hafa samband við sína heilsugæslustöð. Spurð hvort hún hafi sjálf orðið vör við óþægindi vegna loftmengunarinnar svarar Sólveig: „Við finnum aðeins fyrir óþægindum. Það er ekki hægt að neita því að maður finni aðeins fyrir þessu í hálsi og sumir fá höfuðverk,“ segir hún og bætir við að óþægindin séu þó ekki mjög mikil.

Orðinn vanur þessu

Geir Arngrímsson, starfsmaður í afgreiðslu á Sel-Hótel Mývatni, segist lítið hafa orðið var við loftmengun vegna eldgossins í Holuhrauni í dag. 
„Maður sér nú alltaf þetta mistur en það er búið að létta mikið til núna. Oft fer mengunin með fjöllunum og er því meira áberandi úti í Reykjahlíð eins og var í morgun,“ segir hann. „Þegar ég fór út klukkan sjö í morgun þá fann ég ekki fyrir neinu sérstöku, kannski er maður bara orðinn vanur þessu.“
Spurður hvort hann hafi sjálfur fundið fyrir einhverjum óþægindum að undanförnu svarar Geir: „Maður hefur fundið fyrir þessu í augum og einnig í hálsi þegar það er mikið af þessu. En í dag er ég að mestu búinn að vera innandyra. [...] Í norðri er nú blár og heiðskýr himinn en í austurátt má sjá gulgráa slikju.“
mbl.is