„Þetta er mjög mikið fagnaðarefni“

Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands. mbl.is/Ómar

„Við fögnum því einfaldlega mjög að vera á listanum og að halda stöðu okkar í þessum flokki er stórkostlegt. Ég var vissulega mjög kvíðin yfir því að við myndum hugsanlega lækka á listanum eða jafnvel detta út af honum. Þannig að þetta er mjög mikið fagnaðarefni.“

Þetta segir Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is en úttekt Times Higher Education yfir 400 bestu háskóla heimsins var birt í dag. Háskóli Íslands er þar í 251.-275. sæti ásamt fleiri skólum. Besti háskólinn samkvæmt úttektinni er Tækniháskóli Kaliforníu (California Institute of Technology) í Bandaríkjunum en bandarískir og breskir skólar raða sér í efstu sæti listans. Háskóli Íslands er eini hérlendi háskólinn á meðal 300 bestu háskóla heimsins samkvæmt úttektinni.

„Við þökkum þetta náttúrulega starfsfólki og stúdentum sem hafa með sínum metnaði og einbeitta vilja stefnt alltaf hærra og hærra hver svo sem fræðigreinin er. Þetta er sameiginlegur árangurs alls skólans, allra fræðasviða,“ segir Kristín. Ennfremur eigi samstarfsaðilar Háskóla Íslands mikið í þessum árangri. „Þar koma margir við sögu en svo ég nefni þá helstu þá eru það Landspítalinn, Íslensk erfðagreining, Hjartavernd og Matís. Það er hjá okkur eins langflestum öðrum háskólum á listanum að árangurinn fæst í gegnum starf skólans en í samstarfi við aðra.“

Kristín leggur áherslu á að það skipti gríðarlega miklu máli í fámennu landi eins og Íslandi að fólk sameini krafta sem geti skapað árangur sem þennan sem síðan skili sér aftur til samfélagsins. „Þetta er að skapa stúdentum okkar stórkostleg tækifæri, skólanum í heild, og það skilar sé til samfélagsins til baka.“

mbl.is