„Týndu konurnar“ eru í hættu

Á síðustu fimmtíu árum hefðu rúmlega sex hundruð íslenskar konur týnt lífi ef ekki hefði komið til leitar að leghálskrabbameini. En sökum þess mikla árangurs sem náðst hefur á umliðnum árum skila ungar konur sér ekki lengur í leit og þess vegna er þess ekki lengi að bíða þar til bakslag verður í þessari baráttu. 

Bleiku slaufunni, árlegu fjáröflunar- og árveknisátaki Krabbameinsfélagsins, er í ár beint að þeim konum sem ekki fara reglulega í leghálskrabbameinsleit. „Týndu konunum“ hefur fjölgað gríðarlega á stuttum tíma og má það eflaust rekja til þess hversu góðum árangri Íslendingar hafa náð í baráttunni við leghálskrabbameini. 

Á árum áður fóru 84% kvenna á aldrinum 23 ára til 65 ára reglulega í slíka leit en sú tala hefur lækkað niður í 64%. Það þýðir að vel innan við helmingur kvenna á þessum aldri fari reglulega í slíka skoðun. Þrátt fyrir að aðeins tvær konur látist á ári hverju eru um 1.800 sem greinast með afbrigðilegar frumumyndanir. Og ef ekki væri fyrir leit Krabbameinsfélagsins væru það ekki tvær heldur tuttugu sem létust á hverju ári. 

Fari sem horfir, að sífellt færri konur komi í leit, er ljóst að fjöldi þeirra kvenna sem látast úr leghálskrabbameini mun fjölga. Af þessum sökum hefur Krabbameinsfélagið séð ástæðu til þess að nota októbermánuð og átak sitt, Bleiku slaufuna, til þess að gera þjóðinni grein fyrir því sem félagið kallar grafalvarlega staðreynd, og segir það skipta konur landsins og samfélagið allt miklu máli að reglulega fari konur í leghálskrabbameinskoðun.

Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsfélaginu er það mun heillavænna fyrir alla að konur fari reglulega í leghálskrabbameinskoðun heldur en að sleppa því enda sé það staðreynd að ef frumubreytingar mælast á forstigi aukast lífslíkur þeirra gríðarlega. Finnast frumubreytingar nógu snemma má í flestum tilvikum koma í veg fyrir erfiða krabbameinsmeðferð. 

Fresti konur hins vegar skoðun og frumubreytingar á seinni stigum eða jafnvel mein finnast hrapa lífslíkur þeirra og bætist einnig við erfið krabbameinsmeðferð, aukinn kostnaður og almennur harmur sem tengist þessum sjúkdóm. 

Íslendingum hefur tekist að halda leghálskrabbameini niðri með því að konur komi reglubundið í leit. Fari sem horfir, og íslenskar konur hætta að koma í leit, er ljóst að sá árangur sem unnist hefur sé fyrir bí. 

Krabbameinsfélagið hvetur alla til að leggja málstaðnum lið, kaupa Bleiku slaufuna og fræða hvert annað um ástandið sem skapast hefur í leghálskrabbameinsleitinni.

„Ömmur og afar, mæður og feður, dætur og synir, bræður og systur, frænkur og frændur, leggjumst á eitt og höldum leitinni áfram.“

Frétt mbl.is: Hvar eru konurnar?

mbl.is