Andlát Ástu rannsakað sem slys

Leitað var í og við Bleiksárgljúfur í nokkrar vikur.
Leitað var í og við Bleiksárgljúfur í nokkrar vikur. mbl.is/Eggert

Ásta Stefánsdóttir, sem fannst látin í Bleiksárgljúfri þann 15. júlí sl., lést af völdum drukknunar eða ofkælingar. Niðurstaða krufningar liggur fyrir en samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Selfossi bendir ekkert til annars en að um slys hafi verið að ræða.

Rannsókn á málinu stendur enn yfir og er andlát Ástu rannsakað sem slys. Gögn vegna rannsóknar málsins eiga enn eftir að berast og því mun rannsókn málsins ekki ljúka fyrr en að nokkrum vikum liðnum. 

Ásta dvaldi í sumarbústað um hvítasunnuhelgina ásamt unnustu sinni, Pino Becerra Bolanos. Þegar ekkert hafði spurst til þeirra þann 10. júní sl. var leit hafin að konunum. Pino fannst látin um kvöldið í gljúfrinu. Krufning leiddi í ljós að hún lést af völdum áverka eftir hátt fall fram af um 30 metra háum fossi í gljúfrinu.  

Umfangsmikil leit stóð yfir í nokkrar vikur að Ástu. Leitað var á svæðinu í kringum gljúfrið og í gljúfrinu sjálfu. Hér má lesa fréttir mbl.is um leitina í gljúfrinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert