Strætó með bleika slaufu

Í október munu fimm strætisvagnar skarta stórri bleikri slaufu í tilefni af árveknisátaki Krabbameinsfélagsins gegn krabbameini í konum. Samkvæmt fréttatilkynningu frá Strætó bs. verður plakat um verkefnið að finna í öllum vögnum.

Samkvæmt fréttatilkynningunni er Bleikur október hluti af verkefni innan Strætó bs. þar sem viðurkenndum góðgerðar-eða félagasamtökum gefst kostur á að kynna verkefni eða atburði á sínum vegum í vögnum strætó í einn mánuð án endurgjalds.

„Strætó bs. leggur metnað sinn í að vera samfélagslega ábyrgt fyrirtæki og er þetta verkefni hluti af þeirri stefnu,“ segir í fréttatilkynningunni að endingu.

mbl.is