Vendinám virkjar nemendur

Séð yfir háskólasvæði Keilis við Ásbrú.
Séð yfir háskólasvæði Keilis við Ásbrú. Oli Haukur

„Vendinám, eins og nafnið bendir til, snýst um að hlutunum er snúið við. Orðið er þýðing á „Flipped learning“ og það er að ryðja sér mikið til rúms í staðinn fyrir þessa hefðbundnu kennslu þar sem kennarinn er í aðalhlutverki í kennslustundunum og nemendurnir sitja eins og óvirkir hlustendur,“ segir Hjálmar Árnason, framkvæmdastjóri Keilis. Á dögunum hlaut Keilir styrk frá Evrópusambandinu til þess að vinna að innleiðslu vendináms og gerð handbókar fyrir evrópska skóla.

 Keilir hóf að innleiða vendinám fyrir um þremur árum og hefur það gengið vel að sögn Hjálmars. „Á síðasta ári komu um og yfir 1.000 íslenskir kennarar í heimsókn til okkar. Síðan vorum við með ráðstefnu og vinnubúðir en þangað mættu 500 manns. Þetta segir okkur einfaldlega það að íslenskir kennarar eru að leita sér að farvegi fyrir breytta kennsluhætti. Vendinámið fellur mjög vel að því sem menntamálaráherra hefur boðað sem er áhersla á breytta kennsluhætti.“

Lærdómurinn verður lifandi ferli

Í tilkynningu frá Keili kemur fram að fyrirlestrar og kynningar kennara eru vistuð á netinu og geta nemendur horft og hlustað á kynningarnar eins oft og þeim sýnist og hvar sem þeim sýnist. Þá geta nemendur sent spurningar um efnið til kennara eða annarra nemenda í hópnum og fá svör á netinu sem öllum eru opin. Þá eru nemendur hvattir til að nota netið til að finna heppilegt kennsluefni. Fyrir vikið verða kennslustundir í skólanum öðruvísi. Þar vinna nemendur verkefnin, oftast saman í hóp, og kennarar aðstoða eftir þörfum við úrlausnir. Þar sem þetta form hefur verið reynt virðist lærdómurinn verða lifandi ferli sem virkjar nemendur á skemmtilegan hátt.

„Hugmyndin um vendinám kemur frá Bandaríkjunum og guðfeður þess eru þeir Aaron Sams og Jonathan Bergmann. Við höfum verið í sambandi við þá og annar þeirra kom hingað á ráðstefnuna í fyrra. Síðan koma báðir þeirra hingað á næsta ári,“ segir Hjálmar. 

Felur í sér aukið jafnfrétti til náms

„Þar sem þetta hefur verið reynt lengst í Bandaríkjunum hefur niðurstaðan verið sú að árangur á prófum hefur batnað, ánægja nemenda hefur aukist og félagslegum vandamálum hefur fækkað. Þetta er einfaldlega af því að nemendur verða virkari,“ segir Hjálmar sem bætir við að vendinám feli jafnframt í sér jafnréttir til náms.

„Við vitum að það eru ekkert allir sem grípa námsefni strax, þ.e. í hefðbundinni kennslu þar sem kennarinn útskýrir efnið í tíma. Nemendur fara síðan heim og það eru ekki allir sem geta fengið hjálp þar. Sá hópur er síðan líklegastur til þess að dragast aftur úr en með vendináminu er verið að mæta þessum þörfum. Fólk getur hlustað á kennsluna eins oft og það vill og hefur þá betri aðgang að kennaranum.“

Hjálmar segir að styrkurinn frá ESB sé mikil viðurkenning. „Við erum afskaplega ánægð með styrkinn og hann er mikil viðurkenning fyrir okkar góðu kennara sem hafa lagt sig mikið fram um að innleiða þessa hætti og hafa verið mjög örlátir við að deila reynslu sinni til annarra.“

Vendinám hentar öllum námsstigum

Að sögn Hjálmar felur styrkurinn það í sér að kennarar Keilis muni útbúa handbók fyrir evrópska skóla með  leiðbeiningum um hvernig best sé að koma á vendinámi. 

Í apríl á næsta ári verður hér á landi evrópsk ráðstefna þar sem vendinám verður kynnt frekar. Ráðstefnan verður sett upp sem vinnubúðir og munu sjálfir guðfeðurnir, Sams og Bergmann, taka þátt.

Hjálmar segir að vendinám henti öllum námsstigum. „Þetta hentar öllum námsstigum, allt frá leikskóla upp í háskóla. Ég veit til dæmis að nokkrir leikskólar hafa tileinkað sér þetta. Vendinám hefur jafnframt verið notað við Heiðarskóla í Reykjanesbæ og Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit. 

„Vendinám snýst um hvor á að vera virkari, nemandinn eða kennarinn og um að nýta sér það umhverfi sem fólki, og þá sérstaklega ungt fólk, hrærist í í dag. Flestir eru með aðgang að netinu sem er upplýsingaveita alheimsins og skólar verða auðvitað að laga sig að því,“ segir Hjálmar.

Hjálmar Árnason, framkvæmdarstjóri Keilis.
Hjálmar Árnason, framkvæmdarstjóri Keilis.
mbl.is