Mengunin berst til suðvesturs

Af vef Veðurstofu Íslands

Búast má við að gasmengun berist suðvestur af eldstöðinni, frá Eyjafjöllum að Reykjanesi, í dag og á morgun.

Samkvæmt veðurspá fyrir næsta sólarhringinn er norðaustanátt, víða 5-13 m/s. Léttskýjað á S- og SV-landi, annars skýjað og lítilsháttar væta fyrir norðan og austan. Hiti 2 til 10 stig.

Almannavarnir hafa lokað  leiðum á hálendinu Norðausturlands, norðan Dyngjufjalla og  einnig nokkrum leiðum upp úr Bárðardal og við Grænavatn. Vegurinn vestan við Dettifoss er einnig lokaður að hluta. 

Hálendisvegir eru aðeins í þjónustu yfir sumarið en utan þess tíma er færð ekki könnuð. Þegar farið er að snjóa til fjalla eru vegirnir merktir ófærir í varúðarskyni þar sem miklar líkur eru á að færð hafi spillst. Yfir veturinn er akstur á hálendisvegum að jafnaði ekki óheimill, séu menn á nægilega stórum tækjum en aksturinn er á ábyrgð ökumanns. Nú er akstur hins vegar bannaður á ákveðnum vegum vegna eldsumbrotanna og eins er akstur á hálendisvegum bannaður á vorin þegar frost er að fara úr jörð, til að koma í veg fyrir skemmdir á vegum og náttúru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert