Söguleg stund í mannréttindabaráttu barna

Malala Yousafzay, sem barist hefur fyrir menntun stúlkna og Kailash Satyarthi sem unnið hefur að mannréttindum barna á Indlandi hlutu friðarverðlaun Nóbels sem tilkynnt var um í morgun. Barnaheill – Save the Children á Íslandi fagna „þessum merka áfanga í mannréttindabaráttu barna.“

Í fréttatilkynningu frá Barnaheillum segir að þetta sé sögulegur dagur fyrir mannréttindi barna. „Ekki síst vegna þess að fjöldamörg börn eru í dag svipt rétti sínum til menntunar, til dæmis á átakasvæðum þar sem börn þjást vegna árása á skóla. Malala er fulltrúi þess stóra hóps barna sem vill góða menntun og Kaylash Satyarthi þeirra barna sem misnotuð eru í fjárhagslegum tilgangi,” segir Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, í fréttatilkynningunni.

„Veiting friðarverðlaunanna í ár sendir sterk skilaboð til okkar allra um að vinna gegn ofbeldi, ójöfnuði og grimmdarverkum gegn börnum, sérstaklega þeim sem berjast fyrir rétti sínum. Hún gefur mannréttindum barna og röddum þeirra vægi um allan heim. Malala, sem neitaði kúgun öfgaafla og mismunun, er stórkostleg fyrirmynd allra barna sem vilja læra, sérstaklega stúlkna,” segir Erna.

Menntun er einn mikilvægasti hluti þeirrar aðstoðar sem Barnaheill – Save the Children veita. Þetta á ekki síst við þegar kemur að neyðaraðstoð eða hjálparstarfi í stríðshrjáðum löndum. Barnaheill – Save the Children á Íslandi hafa frá árinu 2007 staðið fyrir menntaverkefni í Pader og Agago héruðum í Norður-Úganda, með sérstökum stuðningi við menntun stúlkna.

Kailash Satyarthi og Malala Yousafzai.
Kailash Satyarthi og Malala Yousafzai. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert