Við erum hermenn hafsins

Tómas J. Knútsson.
Tómas J. Knútsson. Þórður Arnar Þórðarson

„Ég hef unnið margar orrustur, hef ekki enn unnið stríðið, en ég mun halda áfram á meðan ég hef heilsu til þess. Ég er búinn að sjá allt sem hægt er að sjá neðansjávar; bæði dýrðina og sóðaskapinn. Einn góðan veðurdag sagði ég sóðaskapnum stríð á hendur,“ segir Tómas J. Knútsson kafari og köfunarkennari í Sandgerði og stofnandi Bláa hersins.

Blái herinn eru umhverfis- og hreinsunarsamtök sem Tómas stofnaði í Keflavík árið 1995. Síðan þá hefur herinn skipulagt og framkvæmt á annað hundrað hreinsunarverkefni í fjörum og sjó víða um land, auk þess að vinna að vitundarvakningu á þessu sviði. Liðsmenn hersins hafa unnið yfir 50.000 stundir og hreinsað yfir 1.100 tonn af rusli af sjávarströndum og úr höfnum. Þar af eru um 300 dekk og 100 rafgeymar. Allt er þetta unnið í sjálfboðastarfi, stundum í samstarfi við íþróttafélög og frjáls félagasamtök.

Tómas var 16 ára þegar hann kafaði í fyrsta sinn, hann á að baki 6.800 kafanir víða um heim en er nú hættur að kafa af heilsufarsástæðum eftir 40 ára köfunarferil.

Efldi Bláa herinn eftir slysið

„Ég var alinn upp við Kanasjónvarpið, þar sá ég köfunarþætti Cousteau. Ég gjörsamlega féll í trans og hugsaði með mér: þetta vil ég gera. Þegar ég byrjaði að kafa var þetta sagt við mig: Ef þú virðir hafið og ert þar sem gestur, þá mun þér ganga vel. Ég hafði það að leiðarljósi. Þegar ég horfi út á hafið koma þau augnablik að ég sakni þess. Ég skil sáttur við köfunina, en hugleiði líka oft það sem miður fór.“

Árið 1998 lést einn nemenda Tómasar við köfun. Það varð honum mikið áfall, en varð til þess að hann ákvað að efla Bláa herinn. „Ungur drengur, Rúnar Bárður Ólafsson, lést í köfun hjá mér. Hann hafði hlakkað til að verða meðlimur Bláa hersins og ég hét því að heiðra minningu hans með því að vinna ötullega að þessum málefnum sem hann hlakkaði til að taka þátt í. Eftir þetta fór ég í baráttuna af heilum hug.“

Köfuðu eftir fé til tækjakaupa

Tómas og nemendur hans hófu að kafa eftir akkerum og bólfærum sem lágu við leguna í Keflavík, seldu þau og öfluðu þannig fjár til að kaupa lyftibelgi til að hífa þyngri hluti, eins og t.d. vörubíladekk, upp af sjávarbotni. Nafnið Blái herinn var síðan hugmynd nemenda Tómasar og festist það fljótt við hópinn. „Jú, herinn er blár vegna þess að við erum að þrífa hafið. Við erum hermenn hafsins.“

Hvað þarf góður kafari að hafa til að bera? „Í fyrsta lagi góða heilsu. Svo þarf hann alltaf að vera með plan B, sem þarf að vera jafn pottþétt og plan A. Maður veit aldrei hvað kemur upp á.“

Samstarf við Eimskip

Spurður hvort umhverfismál hafi alla tíð verið honum hugleikin segir Tómas svo vera. Hann fór ungur til sjós, var messagutti á skipum Sambandsins og eitt af verkum hans var að losa rusl í sjóinn. „Öllu var fleygt fyrir borð, mér sveið að þurfa að gera það og kannski er ég að einhverju leyti að bæta fyrir þetta. Það sem ég hef barist fyrir í gegnum tíðina er að við göngum almennilega um náttúruna. Við eigum bara eitt eintak af þessari jörð,“

Að sögn Tómasar fær Blái herinn um milljón í opinbera styrki á ári hverju og nýtur einnig velvildar ýmissa fyrirtækja og aðila. Nú stefnir í að starfsemi Bláa hersins fari í fastari farveg, því þessa dagana er verið að þróa samstarf við Eimskip um umhverfisvernd og verður það líklega kynnt á næsta ári. Tómas og Blái herinn eru í samstarfi við ýmsa innlenda og erlenda aðila á sviði umhverfisverndar og hafa fengið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín að umhverfis- og hreinsunarmálum, núna síðast Náttúruverndarviðurkenningu Sigríðar í Brattholti.

Tómas segir að fyrir utan það að vera mengandi geti rusl í hafi ógnað öryggi báta. Er þetta ekki óvinnandi verk, að halda fjörum og hafsbotni við strendurnar hreinum? „Við lítum ekki þannig á það. Auðvitað er af nógu að taka, en við höfum tekið nokkur svæði hérna á Reykjanesi í fóstur, m.a. Sandvík, Fitjar, Kópuvík og Garðsskagafjöru. Þar höfum við virkjað heimafólk með okkur og það gengur sífellt betur.“

Við eigum bara eitt haf

Tómas segir allan gang á því hvernig rusl berist í sjóinn. Oft sé um að ræða rusl sem hent sé á víðavangi og fjúki síðan út á sjó. Spurður hvernig þungir hlutir á borð við dekk og rafgeyma endi í sjónum segir hann að enn eigi fólk til að henda dekkjum í sjóinn, rafgeymunum sé hent beint niður þegar verið sé að skipta um þá í bátunum úti á sjó.

„Við eigum bara eitt haf og megum þakka fyrir að það er ekki eins slæmt ástand við Íslandsstrendur og víða annars staðar. Við getum sýnt umheiminum hvernig hægt er að hafa þessa hluti í lagi, það yrði sterkur stimpill á íslenskar sjávarafurðir. En til þess þurfum við að taka þessi mál alvarlega.“

Tómas J. Knútsson.
Tómas J. Knútsson. Þórður Arnar Þórðarson
Tómas á ýmsa gripi úr Flags of our Fathers.
Tómas á ýmsa gripi úr Flags of our Fathers. Þórður Arnar Þórðarson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert