Það er ævintýri að vinna með Dorrit

„Mitt einkenni er litirnir og sígild snið sem ég skreyti síðan með smáatriðum. Reyndar er ég mikil blúnda; ég elska allt krúsidúllerí; pífur, blúndur og slaufur og á erfitt með að sleppa þeim.“ Þetta segir Helga Björg Steinþórsdóttir, fatahönnuður í Mýr Design, sem er með vinnustofu sína og verslun í frumkvöðlasetrinu á Ásbrú.

Helga er menntuð í fatasaumi og hóf að hanna föt árið 2006, þá búsett í Austurríki. „Þetta byrjaði með hálsmenum og armböndum, síðan fór ég að prjóna, svo að sauma. Þetta vatt upp á sig og ég hélt áfram með það sem gekk vel.“

Helga segist fá hugmyndir víða að. „Mér finnst óskaplega gaman að leika mér með form og liti, ég er ekki mikið fyrir svart.“

Í grunninn eru flíkur Helgu sígildar í sniðinu, sumar þeirra hafa verið saumaðar eftir sama sniði í mörg ár, en efnið er mismunandi og sömuleiðis ýmis smáatriði í flíkinni. Sem dæmi um þetta nefnir hún jakka sem hún hefur saumað eftir sama sniðinu en úr mismunandi efnum síðan 2007 en hún saumar aldrei fleiri en einn í hverri stærð. Það gildir reyndar um öll föt sem Helga hannar.

Málverk og föt

Mýr Design er selt á Ásbrú, í Keflavík, á Facebook-síðu Mýr Design og í galleríinu Atelier Einfach í borginni Linz í Austurríki. Það rekur Helga ásamt Lindu systur sinni sem er listmálari og búsett þar ytra. Systurnar hafa haldið sýningar saman og Helga segir vel fara á því að sýna saman málverk og fatnað. „Fötin mín og myndirnar hennar passa vel saman,“ segir hún og bætir við að Linda prjóni geysivinsælar húfur sem seldar eru hjá Mýr Design.

Helga kynnir nýjar línur á vorin, haustin og fyrir jólin og segir viðskiptamannahópinn fjölbreyttan. „Þetta eru föt fyrir allar konur og mér finnst skipta miklu máli að fötin fari ekki úr tísku. Að konan geti átt fötin lengi og að henni líði vel í þeim,“ segir hún.

Meðal viðskiptavina Helgu er Dorrit Moussaieff forsetafrú, en Helga hefur um skeið hannað og prjónað lopapeysur sem Dorrit hefur skrýðst við ýmis tækifæri og að auki klæðist Dorrit gjarnan fatnaði frá Mýr Design. Helga segir forsetafrúna hafa gert mikið varðandi kynningu á íslenskri hönnun. „Það er svo gaman að vinna fyrir hana, hálfgert ævintýri og ég er óskaplega stolt af því.“

Allt breyttist við veikindin

Í fyrra greindist Helga með krabbamein í lunga og í kjölfarið var annað lungað tekið. „Allt breytist þegar maður gengur í gegnum svona veikindi. Maður verður svo hamingjusamur með allt. Þetta setti auðvitað heilmikið strik í reikninginn varðandi Mýr Design, mér fannst ég ekki geta gert nein framtíðarplön, en núna get ég farið að huga að því.“ Spurð um í hverju þau felist segir Helga að nokkrum sinnum hafi henni verið boðið upp á samstarf um fjöldaframleiðslu á hönnun hennar, en hingað til hefur hún hafnað því. „Ég er svo ánægð með þetta persónulega samband sem ég hef við marga í mínum kúnnahópi. Það er eitthvað sem ég vil alls ekki missa.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »