„Þetta var mest fíflagangur framan af“

Rakari, eftirherma, veitingamaður, fjölmiðlamaður, skemmtikraftur, trúður og töframaður í spænskum sirkus, leiðsögumaður og ferðaskipuleggjandi. Ekki má gleyma titlinum ástríðufullur golfari. Líklega vantar einhver störf á listann. Ferilsskrá Jörundar Guðmundssonar er fjölbreytt, nú rekur hann vinsælan veitingastað, Gamla pósthúsið, í gömlu pósthúsi í Vogum á Vatnsleysuströnd og segist hvergi annars staðar vilja búa og starfa.

Jörundur er einkum þekktur fyrir eftirhermur sínar af ýmsum þekktum mönnum. „Ætli ég hafi ekki byrjað á þessu þegar ég var strákur í sveit í Fagranesi í Aðaldal. Þetta var einskonar þjóðaríþrótt í sveitinni, að herma eftir sveitungunum og þarna voru margir góðir í því,“ segir Jörundur um upphaf þess að hann hermdi eftir fólki í atvinnuskyni. „Þetta var mest fíflagangur framan af, síðan kom ég fyrst fram opinberlega með eftirhermur á árshátíð Þjóðviljans.“ Það var árið 1968 og í kjölfarið fylgdu skemmtanir víða um land, útvarps- og sjónvarpsþættir og hljómplötur. Hann ferðaðist m.a. um landið með Óla Gauk og Svanhildi, síðar með Halla og Ladda og var hluti hóps sem skemmti á Þórscafé árum saman undir nafninu Þórskabarett. „Ég hætti þessu svo að mestu í kringum 1990. Mér fannst eins og neistinn væri farinn að dofna. Ég spurði sjálfan mig heiðarlega: Ef þú hefur ekki gaman af þessu, heldurðu þá að fólkið sem hlustar á þig hafi gaman af? En ég fór sáttur út úr þessu. Ætli ég hafi ekki síðast hermt eftir í atvinnuskyni þegar ég var fararstjóri á eyjunni La Gomera á Kanaríeyjum.“

Rólegt og gott líf

Á þeirri litlu eyju var hann búsettur um nokkurra ára skeið ásamt Guðrúnu Kolbeinsdóttur eiginkonu sinni. Þar voru þau fararstjórar og störfuðu einnig við ferðaþjónustu. „Við settumst þarna að fyrir tilviljun. Við bjuggum fyrst í ár á Gran Canaria, þar sem ég starfaði á fasteignasölu og ráðlagði Skandinövum við kaup og leigu á húsnæði.“ Kynni af ferðafrömuði á La Gomera urðu til þess að hjónin fóru að starfa fyrir hann. „Við ákváðum að slá til í eitt ár, sem síðan urðu þrjú. La Gomera er lítið snortin af ferðamönnum, þarna búa um 20.000 manns og lífið þarna er mjög rólegt, mucho tranquila eins og Spánverjarnir segja. En mjög gott líf.“

Árið 2008, þegar kreppti að víða um heim, fækkaði ferðamönnum það mikið á þessum slóðum að ekki var lengur grundvöllur fyrir ferðaþjónustunni og þá leitaði hugur Jörundar og Guðrúnar til Voga, en þar höfðu þau áður verið búsett „Ég var farinn að bera víurnar í þetta hús hér,“ segir hann og á þar við gamla pósthúsið þar sem hann rekur veitingastað sinn. „Keypti húsið, breytti því og innréttaði og opnaði síðan veitingastaðinn í júní 2011,“ segir Jörundur og segir að Guðrún eigi mestan heiðurinn af rekstrinum. „Ég kem lítið inn í eldhúsið, fæ svona að vera með.“

Ein stór matarkista

Fyrsta árið buðu hjónin eingöngu upp á pítsur, en aukin eftirspurn sem ekki síst varð vegna fjölgunar ferðamanna á svæðinu, varð til þess að þau ákváðu að bjóða upp á fjölbreyttari mat. Þau leggja nú áherslu á fiskrétti, einkum steinbít og sjóbleikju sem þau fá af svæðinu. „Hér er ein stærsta matarkista á landinu,“ segir Jörundur. „Hérna á svæðinu er eitt stærsta svínabú landsins, stór steinbítsverkun, mikið bleikjueldi, hrognaframleiðsla og eggjabú. Þetta litla sveitarfélag leynir á sér.“

Samhliða því að skemmta landanum rak Jörundur rakarastofu sína við Hlemm um áratuga skeið. Hann hætti að klippa og raka fyrir allmörgum árum og eina hárið sem hann skerðir þessa dagana er á höfði Guðrúnar eiginkonu hans.

Þá flutti hann inn breskt tívolí um 18 ára skeið, en eftir bankahrunið brast grundvöllurinn fyrir því. „Ætli ég hafi ekki alltaf verið að reyna að skemmta mér og öðrum,“ segir hann um þetta framtak sitt.

Gríðarlega gott í Vogum

Jörundur er fæddur og uppalinn á Akureyri og á þar nú átta barnabörn. Hann hefur verið búsettur víða, í Vogum unir hann hag sínum vel og vill hvergi annars staðar búa. Hann er ötull golfari, var einn af stofnendum golfklúbbsins í bænum og segir völlinn besta níu holu völl á landinu. „Hér er allt til alls, stutt í allar áttir. Þetta er rólegt og sérlega barnvænt samfélag. Af öllum þeim stöðum þar sem ég hef búið, hefur mér liðið einna best hér í Vogum. Hér er gríðarlega gott að vera“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »