Engin markaðsframkvæmd viðurkennd

Fjármálaeftirlitið
Fjármálaeftirlitið Ómar Óskarsson

„Fjármálaeftirlitið hefur ekki viðurkennt tiltekna markaðsframkvæmd um viðskipti eða fyrirmæli á skipulegum verðbréfamarkaði, á grundvelli ákvæða laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 né með öðrum sambærilegum hætti.“ Þetta segir í svari FME til saksóknara sem lagt var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.

Svarið er því hluti af málsgögnum í máli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans. Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari í málinu, sendi Fjármálaeftirlitinu fyrirspurn á miðvikudag í síðustu viku og segir í henni að vegna varna í málinu hafi þótt rétt að afla yfirlýsingar FME um það hvort stofnunin hafi fyrir 8. október 2008 eða síðar viðurkennt einhverja markaðsframkvæmd um viðskipti eða fyrirmæli á skipulegum verðbréfamarkaði [...] með þeim hætti sem kveðið er á um í reglugerð á grundvelli 118. gr. sömu laga.

Svarbréfið barst á föstudag og staðfesti stofnunin að tiltekin markaðsframkvæmd um viðskipti eða fyrirmæli á skipulegum verðbréfamarkaði hefði ekki verið viðurkennd.

Kom inn í lögin árið 2005

Í orðskýringum laga um verðbréfaviðskipti segir eftirfarandi um viðurkennda markaðsframkvæmd: „Framkvæmd sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að sé viðhöfð á einum eða fleiri fjármálamörkuðum og Fjármálaeftirlitið hefur viðurkennt með þeim hætti sem kveðið er á um í reglugerð sem sett skal á grundvelli 118. gr.“

Viðurkennd markaðsframkvæmd kom inn í lög um verðbréfaviðskipti árið 2005 og var um EES-tilskipun að ræða. Í greinargerð með frumvarpinu segir að hugtakið viðurkennd markaðsframkvæmd (e. accepted market practices) sé nýtt í verðbréfaviðskiptalögunum. „Með viðurkenndri markaðsframkvæmd er átt við framkvæmd sem talið er eðlilegt að gera ráð fyrir að sé viðhöfð á fjármálamörkuðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá er það gert að skilyrði að Fjármálaeftirlitið hafi viðurkennt framkvæmdina.“

Þá segir að gert sé ráð fyrir að nánar verði kveðið á um það í reglugerð hvaða atriði þarf að hafa í huga við mat á því hvort markaðsframkvæmd verði viðurkennd, t.d. hvort framkvæmd dragi úr eða auki seljanleika skráðra verðbréfa og hvort framkvæmdin sé gagnsæ fyrir aðila á markaði. „Þá er gert ráð fyrir að í reglugerð verði kveðið á um með hvaða hætti Fjármálaeftirlitið skuli framkvæma mat á markaðsframkvæmd.“

Síðar segir að ljóst sé að viðurkenning á markaðsframkvæmd sem ella teldist markaðsmisnotkun feli í sér undantekningu sem skýra verði þröngt. Því sé ekki líklegt að listi yfir viðurkennda markaðsframkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu verði langur. „Sé markaðsframkvæmd útbreidd er líklegra að hún teljist viðurkennd, þótt ekki sé það algilt. Útbreidd markaðsframkvæmd getur því talist ólögmæt. Sé markaðsframkvæmd ný af nálinni og hafi hún ekki náð útbreiðslu er á hinn bóginn ekki útilokað að hún muni teljast viðurkennd markaðsframkvæmd. Markaðsframkvæmd sem er að ryðja sér til rúms skal því ekki talin óviðurkennanleg eingöngu á þeim grunni að hún hafi ekki verið viðurkennd annars staðar og hafi ekki náð útbreiðslu.“

Þá geti framkvæmd verið talin viðurkennd á tilteknum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins án þess að vera viðurkennd á öllum mörkuðum þess.

Við endurskoðun laganna árið 2007 hélt umrætt ákvæði sér óbreytt.

Reglugerðin einnig sett 2005

Reglugerðin sem nefnd er í lögunum var jafnframt sett árið 2005. Í henni segir meðal annars: „Ný eða nýtilkomin markaðsframkvæmd skal ekki talin óviðunandi af hálfu Fjármálaeftirlitsins einungis vegna þess að það hefur ekki áður samþykkt hana.

Fjármálaeftirlitið skal endurskoða reglulega markaðsframkvæmd sem það hefur viðurkennt, einkum með tilliti til breytinga sem orðið hafa á markaðsumhverfi, t.d. breytinga á viðskiptareglum eða skipulagi verðbréfamarkaðarins.“

Óvíst með áhrif á málið

Í málinu eru sakborningar ákærðir fyrir brot gegn a- og b- lið 1. töluliðar 1. mgr. 117. gr., sbr. 1. tölulið 146. gr. laga um verðbréfaviðskipti. Þar segir: „Markaðsmisnotkun er óheimil. Með markaðsmisnotkun er átt við að:
1. eiga viðskipti eða gera tilboð sem:
a. gefa eða eru líkleg til að gefa framboð, eftirspurn eða verð fjármálagerninga ranglega eða misvísandi til kynna, eða
b. tryggja óeðlilegt verð eða búa til verð á einum eða fleirum fjármálagerningum, nema aðilinn sem átti viðskiptin eða gaf fyrirmæli um þau geti sýnt fram á að ástæður að baki þeim séu lögmætar og að viðskiptin eða fyrirmælin hafi verið í samræmi við viðurkennda markaðsframkvæmd á viðkomandi skipulegum verðbréfamarkaði.“

Í 1. tölulið 146. gr. sömu laga segir svo: „Það varðar sektum eða fangelsi allt að sex árum, liggi þyngri refsing ekki við broti samkvæmt öðrum lögum, að brjóta gegn ákvæðum:
1. 1. mgr. 117. gr. um markaðsmisnotkun.“

Hvort það hafi einhver áhrif á mál sérstaks saksóknara að Fjármálaeftirlitið hafi ekki á undanförnum níu árum viðurkennt tiltekna markaðsframkvæmd um viðskipti eða fyrirmæli á skipulegum verðbréfamarkaði á hins vegar eftir að koma í ljós. Verjendum virtist alla vega vera nokkuð skemmt þegar þeir sáu svar FME þegar það var lagt fram í morgun.

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðið) ásamt aðstoðarmönnum.
Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðið) ásamt aðstoðarmönnum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert