Fallið frá bótakröfu í máli hjúkrunarfræðingsins

Fyrirtaka var í máli ríkissaksóknara gegn hjúkrunarfræðingi og Landspítalanum í morgun, þar sem ákært er fyrir manndráp af gáleysi. Í fyrirtökunni var fallið frá kröfum vegna missis framfæranda, en eftir standa einkaréttarkröfur um miskabætur og útfararkostnað, sem og refsikrafa.

Réttargæslumaður féll frá kröfum vegna missis framfæranda við fyrirtökuna. Ekki fengust skýringar á því hvers vegna fallið var frá þeirri kröfu, en hún er langstærsta bótakrafan, sem í heild nam um 14,5 milljónum króna.

Einar Gautur Steingrímsson var skipaður verjandi hjúkrunarfræðingsins í stað Brynjólfs Eyvindssonar og Kristín Edwald í stað Karls Axelssonar, sem fór með málsvörn LSH.

Guðjón St. Marteinsson, dómari í málinu, bar undir lögmenn hvort gagnaöflun væri lokið, sem þeir svöruðu játandi. 

Málinu var frestað til 30. janúar, þegar verjendur munu skila greinargerð. Ekki verður ljóst fyrr en þá hvaða vitni munu koma fram í málinu. 

Guðjón bókaði að meðdómsmenn í málinu verða Sigurður E. Sigurðsson, svæfingalæknir og framkvæmdastjóri lækninga við sjúkrahúsið á Akureyri, og Magnús K. Gíslason, lektor við heilbrigðisverkfræðideild Háskólans í Reykjavík.

Máli hjúkrunarfræðings frestað vegna gagnaöflunar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert