„Við ölum fólk ekki bara á hafragraut“

Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík.
Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Ég held að það kosti talsvert mikið meira. Við ölum fólk ekki bara á hafragraut,“ segir Margrét Sigfúsdóttir, skólastjóri Hússtjórnarskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is spurð út í þá forsendu sem finna má í virðisaukaskattsfrumvarpi fjármálaráðuneytisins að hver máltíð kosti fjögurra manna fjölskyldu 248 krónur á dag.

„Þúsundkall er enginn peningur. Ef þú ferð og kaupir fyrir fjögurra manna fjölskyldu eitt kíló af ýsuflökum, eitt kíló af kartöflum og kannski þrjá, fjóra tómata með og hálfa gúrku þá færðu þetta ekki fyrir þúsundkall. Kíló af ýsuflökum kostar eitthvað um 1.700 krónur. Og hvað þá ef þú ætlar að elda kjötsúpu. Ég keypti í kjötsúpu fyrir tíu í gær og það kostaði 10 þúsund kall. Það er þúsundkall á mann í eina máltíð. Þannig að mér finnst þetta út í hött,“ segir hún.

Margrét segir að málið sé síðan afar öfugsnúið því á sama tíma sé verið að hvetja fólk til þess að borða hollt og gott, grænmeti og ávexti og borða mat sem er eldaður frá grunni og það kosti allt meira. „Þú getur keypt þér kjötbúðing sem er fullur af fitu og bindiefnum fyrir þetta. En það er mér vitanlega ekki það sem stjórnvöld ætlast til að fólk borði. Lýðheilsusjónarmið ganga út á allt annað. Það verður að skoða þetta í réttu samhengi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert