Brotin gerast vart alvarlegri

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðjunni) ásamt aðstoðarkonum sínum.
Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari (í miðjunni) ásamt aðstoðarkonum sínum. mbl.is/Árni Sæberg

Sérstakur saksóknari krefst þess að fjölskipaður Héraðsdómur Reykjavíkur líti til refsiramma laganna þegar refsing er ákveðin fyrir Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans. Á hann því yfir höfði sér 6 ára fangelsi verði hann fundinn sekur um markaðsmisnotkun. Saksóknari fer einnig fram á að dómurinn líti til ólíkrar stöðu og hagsmuna þegar refsing er ákveðin fyrir þá Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestinga bankans, Sindra Sveinsson og Júlíus S. Heiðarsson, starfsmenn sviðsins. 

Eins og fram hef­ur komið ákærði sér­stak­ur sak­sókn­ari Sig­ur­jón, Ívar og tvo starfs­menn eig­in fjár­fest­inga, þá Júlí­us og Sindra fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa hand­stýrt verðmynd­un hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og með því blekkt fjár­festa, kröfu­hafa, stjórn­völd og sam­fé­lagið í heild.

Arnþrúður Þórarinsdóttir, saksóknari, hóf ræðu sína klukkan níu og lauk henni ekki fyrr en klukkan tvö. Hún fór um víðan völl og útskýrði á fræðilegan hátt helstu hugtök sem koma fyrir í ákærunni. Í sem einföldustu máli er ákært fyrir að halda uppi verði hlutabréfa í Landsbankanum með því að búa til falska eftirspurn.

Það hafi verið gert með „gegndarlausum kaupum“ eigin fjárfestinga Landsbankans á bréfum í bankanum sjálfum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Þegar bréfin söfnuðust upp og bankinn nálgaðist flöggunarmörk „losaði bankinn sig við bréfin“ þannig að valdir viðskiptavinir voru fengnir til að taka við bréfunum, með fullri fjármögnun bankans. Hefðu bréfin verið seld á markaði hefði verð þeirra hríðfallið. Þannig seldu eigin fjárfestingar nánast ekkert en verðbréfamiðlun seldi meira en hún keypti, í utanþingsviðskiptum.

Saksóknari sagði að með kaupum í pöruðum viðskiptum hafi tekist að halda verði bréfa í bankanum uppi og lækkuðu þau ekki eins mikið og þau hefðu átt að gera á ákærutímabilinu. Það hafi hjálpað til að ekki var hægt að sjá hvort Landsbankinn væri að kaupa bréfin sjálfur eða fyrir viðskiptavini sína.

Ákærðu hafi að sama skapi vitað að mikið framboð utanþings hefði ekki áhrif á verð bréfanna enda ekki vitneskja um framboðið á markaði. Lykilatriði á heilbrigðum verðbréfamarkaði sé hins vegar að allir hafi sömu upplýsingar.

„Jaðraði við hreina sturlun“

Saksóknari sagði að kauphegðunin hefði verið kerfisbundin og beri þess merki að einbeittur brotavilji bjó að baki. Þegar verð á bréfum bankans lækkaði hafi ákærðu aukið kaupin þar til jafnvægi náðist að nýju. En þegar verðið var stöðugt eða hækkaði þá minnkuðu eigin fjárfestingar kaupin. Þannig hafi hlutabréfaverð lækkað í byrjun árs 2008 en með miklum hlutabréfakaupum hafi tekist að hækka verðið aftur og halda því nokkuð stöðugu á árinu.

Fimm síðustu viðskiptadaganna fyrir fall Landsbankans jókst framboð á bréfum í bankanum margfalt og hefði því átt að lækka að sama skapi. Kaup eigin fjárfestinga jukust hins vegar að sama skapi og „jaðraði við hreina sturlun 3. október“ þegar gríðarlega mikið var keypt af bréfum bankans undir lok dags. Hækkuðu þeir verðið úr 18,8 í 19,9 á um þrjátíu mínútum og hækkaði gengið um 0,9 frá deginum áður.

Saksóknari sagði að lítil raunveruleg eftirspurn hefði verið eftir bréfum í Landsbankanum á ákærutímanum og hafi ákærðu tryggt hátt verð á þeim með ærnum tilkostnaði. Engar viðskiptalegar forsendur hafi verið fyrir meira en fimm þúsund viðskiptum og mikið uppsafnað tjón bankans staðreynd.

Ekki keypt eins í öðrum bönkum

Saksóknari vitnaði nokkuð oft í álitsgerð tveggja danskra sérfræðinga í verðbréfaviðskiptum en niðurstaða þeirra var sú að kauphegðunin á ákærutímanum sýni greinilegt mynstur um kerfisbundna markaðsmisnotkun. Tók Arnþrúður fram að sérfræðingarnir hefðu haft undir höndum kauphallarherminn góða og önnur gögn.

Meðal annars vísaði saksóknari til þess að eigin fjárfestingar Landsbankans hafi átt að vera tekjuaflandi deild en engu að síður hafi hún aldrei séð sömu kauptækifæri í hinum stóru bönkunum og í eigin bréfum. Þannig hafi kaup og sala með bréf í Kaupþingi og Glitni verið í jafnvægi, deildin seldi 2% meira í Kaupþingi en hún keypti og 1% meira í Glitni. Á sama tíma keypti deildin 47% meira í eigin bréfum en hún seldi.

„Hin miklu kaup [í eigin bréfum] voru ekki í samræmi við önnur kaup EFL. Þegar litið er yfir kaup EFL á öðrum innlendum hlutabréfum blasir við að deildin keypti margfalt meira í eigin bréfum og jukust kaupin eftir því sem leið á tímabilið en dró úr kaupum á öðrum bréfum,“ sagði saksóknari og benti á að verð á þeim hefði engu að síður sveiflast með sama hætti og bréf Landsbankans.

„Sigurjón studdi við háttsemina“

Júlíus og Sindri stóðu að langstærstum hluta þeirra viðskipta og tilboða fyrir hönd eigin fjárfestinga bankans. Saksóknari sagði útilokað að þeir hafi haft algjörlega frjálsar hendur með kaup í eigin bréfum bankans, enda hafi þeir báðir borið um að þeirra næsti yfirmaður, Ívar, hefði gefið þeim ýmist bein eða almenn fyrirmæli um kaup á bréfum í bankanum. Þeir hafi einnig borið öll stærri mál undir hann.

Þá hafi Sigurjón borið ábyrgð á verðbréfasviði bankans og haft bein afskipti af starfsemi eigin fjárfestinga, með því að gefa Ívari fyrirmæli. Sigurjón hafi til dæmis farið fyrir fjármálanefnd sem fundað hafi reglulega um stöðu bankans í eigin bréfum. Þá hafi Ívar vikulega kynnt nefndinni stöðuna. Saksóknari sagði að Sigurjón hefði haft bein afskipti af því þegar losa þurfti eigin fjárfestingar um eigin bréf, þegar staðan var þannig að stutt var í flöggunarmörk. „Sigurjón studdi við háttsemina og hvatt til að henni yrði haldið áfram.“

Saksóknari sagið að Sigurjón samþykkti sölu hlutabréfa í Landsbankanum til valinna viðskiptavina, með fullri fjármögnun bankans. Hafi það verið gert til að losa eigin fjárfestingar við bréfin þannig að deildin gæti haldið áfram að kaupa bréf á markaði.

Meðal annars nefndi saksóknari að á tímabilinu 17.-31. mars 2008 hafi Landsbankinn og Straumur skipst á hlutabréfum. Sagði saksóknari að Sigurjón hefði gefið Ívari bein fyrirmæli um að setja sig í samband við Straum og koma viðskiptunum á. Hafi þá verið búið að semja um þau fyrirfram. Á tímabilinu seldu eigin fjárfestingar Landsbankans bréf í bankanum fyrir 5,7 milljarða króna og keypti á móti bréf í Straumi fyrir 5,66 milljarða króna.

Sama hafi verið uppi á teningnum á tímabilinu 17.-30 september 2008 en þá seldu eigin fjárfestingar Landsbankans bréf í bankanum til Glitnis fyrir 3,7 milljarða króna og keypti bréf í Glitni fyrir sömu upphæð.

Fyrir þessi viðskipti hafi „allt verið að fyllast af eigin bréfum“ í Landsbankanum og hafi því verið ráðist í þessi viðskipti. Viðskiptalegar forsendur hafi ekki búið að baki enda hafi menn varla haft meiri trú á Straumi eða Glitni en eigin banka. Auk þess sem mikil kaup eigin fjárfestinga í bréfum í Landsbankanum á markaði héldu áfram. „Skapaðist þannig vítahringur refsiverðrar háttsemi.“

Tapið 3,5 milljarðar króna

Saksóknari sagði að uppsafnað tap vegna viðskipta eigin fjárfestinga með bréf í Landsbankanum hefði numið 3,5 milljörðum króna, en séu tekin með í reikninginn þau bréf sem eigin fjárfestingar áttu í bankanum þegar hann féll nemi tapið 8,5 milljörðum króna, en síðustu fimm daga fyrir fall hans nam kostnaður Landsbankans af kaupum á eigin bréfum meira en 13 milljörðum króna.

Þá sagði saksóknari að uppsafnað tap vegna viðskiptanna væru engu að síður smávægiegt í samanburði við það útlánatap sem hlaust af sölu Landsbankans á hinu uppsafnaða hlutafé í utanþingsviðskiptunum sem fjármögnuð voru að fullu með lánum frá bankanum.

Meðal nefndra utanþingsviðskipta voru sala hlutabréfa til Imon, Pro-Invest Partners Corp. og Hunslow S.A.

Fordæmalaust mál

Saksóknari sagði undir lok ræðu sinnar að brotin eigi sér ekki fordæmi hér á landi og um sé að ræða langvinnari, grófari, stórfelldari og skaðlegri markaðsmisnotkun en dæmi eru um, bæði varðandi fjölda viðskipta og fjárhæðir. Þá verði við ákvörðun refsingar að líta til þess tjóns sem brotin höfðu fyrir Landsbankann og samfélagið.

Einnig sagði saksóknari mikilvægt að rétturinn sendi skýr skilaboð út í samfélagið um að það varði refsingu að handstýra hlutabréfaverði. Refsiramminn sé sex ára fangelsi og brotin gerist vart alvarlegri en í þessu máli. Hins vegar þurfi dómurinn að taka til greina ólíka stöðu og hagsmuni ákærðu.

Næstur tekur til máls Sigurður G. Guðjónsson, verjandi Sigurjóns Árnasonar, en fyrirhugað er að ljúka málflutningi á morgun.

Uppfært klukkan 15.50:

Í fyrirsögn og inngangi fréttarinnar kom fram að saksóknari hefði farið fram á sex ára fangelsi yfir Sigurjóni og Ívari. Saksóknari sagði það ekki berum orðum heldur var lagt út af orðum hans um að refsiramminn sé sex ára fangelsi og að brotin sem ákært er fyrir gerist vart alvarlegri. Verjendur telja hins vegar óvarlegt að fullyrða þar um og hefur því fyrirsögn og inngangi verið breytt í samræmi við það. 

mbl.is