Kristján Þór hefur neytt ólöglegra fíkniefna

Kristján Þór Júlíusson í viðtali við Unnsteinn Manuel Stefánsson.
Kristján Þór Júlíusson í viðtali við Unnsteinn Manuel Stefánsson. Skjáskot/RÚV

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, segist bæði hafa neytt löglegra og ólöglegra fíkniefna. Þetta kom fram í unglingaþættinum Hæpið á RÚV í kvöld.

Í þætti kvöldsins var fjallað um skemmtanamenningu meðal ungs fólks og m.a. hversu auðvelt væri að útvega fíkniefni. Í þættinum var gerð tilraun með tveimur ungmennum sem ekki höfðu aldur til áfengiskaupa. Þau gátu bæði orðið sér úti um áfengi og kannabis á innan við fimm mínútum - með fáeinum símtölum.

Unnsteinn Manuel Stefánsson, annar stjórnandi þáttarins, tók í kjölfarið viðtal við Kristján Þór, heilbrigðisráðherra.

„Ætlarðu að lögleiða eiturlyf?“ spurði Unnsteinn og vísaði til umræðu um afglæpavæðingu fíkniefna.

„Nei, ég hef ekki áhuga á því. Þetta snýst fyrst og fremst um það að leita allra leiða sem færar eru til að ná betri árangri í baráttunni við ólögleg fíkniefni,“ svaraði ráðherrann.

„En þú sjálfur, stundar þú skemmtanalífið af krafti?“ spurði Unnsteinn.

„Alveg óstjórnlega,“ sagði Kristján Þór og brosti. „Ekki eftir að ég kom hingað til borgar óttans,“ sagði hann en Kristján bjó á Akureyri áður en hann settist á Alþingi.

Því næst spurði Unnsteinn: „Hefurðu neytt ólöglegra eiturlyfja?“

Og Kristján svaraði: „Að sjálfsögðu. Bæði löglegra og ólöglegra.“

Unnsteinn: Hvaða eiturlyf voru það?

„Það ætla ég ekkert að upplýsa. Það hefur enginn áhuga á að heyra það,“ sagði Kristján þá og hló.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert