Maðurinn sem hratt málinu af stað

Baldur Thorlacius
Baldur Thorlacius Ljósmynd/Ingólfur

Starfsmaður Kauphallarinnar sem skrifaði bréf til Fjármálaeftirlitsins í janúar 2009 og hvatti til þess að rannsakað yrði hvort innan Landsbankans, Kaupþings og Glitnis hefði verið stunduð markaðsmisnotkun kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur á mánudag. Og varð orrahríð.

Eins og fram hefur komið ákærði sérstakur saksóknari Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestinga sama banka, og tvo starfsmenn eigin fjárfestinga, þá Júlíus S. Heiðarsson og Sindra Sveinsson.

Allir eru þeir ákærðir fyrir markaðsmisnotkun á tímabilinu 1. nóvember 2007 til 3. október 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa handstýrt verðmyndun hlutabréfa í Landsbankanum og með því blekkt fjárfesta, kröfuhafa, stjórnvöld og samfélagið í heild.

Umræddur starfsmaður, Baldur Thorlacius, starfar og starfaði sem sérfræðingur á eftirlitssviði Kauphallarinnar. Hann hóf störf hjá Kauphöllinni 2. maí 2007 og í janúar 2008 skrifaði hann undir bréf til Fjármálaeftirlitsins um meint brot bankanna. Hann svaraði einnig Fjármálaeftirlinu sem vildi fá upplýsingar um það hvernig gæti staðist að Kauphöllinn hefði ekki séð neitt rangt við viðskipti stóru bankanna fyrr en þeir féllu.

Skýrði Baldur það þannig að ekkert sérstakt hefði bent til þess á árinu 2008 að um markaðsmisnotkun hefði verið að ræða, enda hefðu bankarnir nokkurn veginn gengið í takt. Viðvörunarbjöllur hefðu ekki hringt. Hann sagði hins vegar, og svaraði spurningum saksóknara, að „trendið“ hefði byrjað síðla sumars 2008. Bankarnir hafi þá verið að kaupa mun meira í sjálfum sér en þeir seldu.

Fór persónulega með gögn

Reimar Pétursson, verjandi Sindra, spurði Baldur svo gott sem spjörunum úr í um klukkustund. Úr þeirri yfirheyrslu kom annars í ljós að Baldur skrifaði kaflann um verðbréfamarkaði í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Einnig vakti Reimar athygli á því að í hvert skipti sem sérstakur saksóknari óskaði eftir gögnum frá Kauphöllinni þá fór Baldur persónulega með gögnin og afhenti þau, aðeins degi síðar. Baldur svaraði því til að mögulega hefði það verið í leiðinni fyrir hann, alla vega væri ekki langt úr Kauphöllinni og niður á Skúlagötu.

Reimar: „Hefur þú verið áhugamaður um að þetta mál yrði rannsakað?“

Baldur: „Við settum þetta af stað og viljum fá niðurstöðu í málið.“

Reimar spurði einnig út í það hvers vegna Baldur hefði komið fram í Kastljósi og rætt þessi mál, og hvort það benti ekki eindregið til afstöðu hans til sakarefnisins. „Það er engin sérstök skýring. Ég varð bara við þeirri beiðni, og það var í samráði við Kauphöllina,“ sagði Baldur.

Hann sagðist ekki hafa mótað sér skoðun á málinu en mynstrið gæti talist falla undir markaðsmisnotkun.

„Þú ert maðurinn sem hratt málinu af stað,“ sagði Reimar á einum tímapunkti og greip þá dómsformaður inn í og taldi ekki alveg sanngjarnt að hengja þann borða á Baldur.

Reimar: „En þú skrifaðir bréfið til Fjármálaeftirlitsins sem hratt málinu af stað?“

Baldur: „Já.“

Í dag hefst málflutningur í málinu og hefur saksóknari leik.

Kauphöllin.
Kauphöllin. mbl.is/Þórður
mbl.is