Telur að breyta þurfi stjórnarskránni

Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar Óskarsson

Fyrrverandi utanríkisráðherra telur að framkvæmd EES-samningsins sé á heildina litið komin töluvert umfram það sem stjórnarskrá Íslands leyfi. Sé hvert einstakt mál skoðað sé það í það minnsta á gráu svæði en séu heildaráhrifin skoðuð sé löngu komið út fyrir þau mörk. Þetta kom fram í máli Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.

„Nú held ég hins vegar að það sé komið að kaflaskilum í þessu máli. Ríkisstjórnin hefur í þessari viku lýst því að hún hafi náð samkomulagi um það með hvaða hætti á að innleiða hér flóknar og djúpstæðar tilskipanir frá Evrópusambandinu um fjármálaeftirlit. Það er að sönnu fyrirhugað að byggja það á hinu tveggja stoða kerfi sem EES-dæmið allt saman gengur út á. En það breytir hins vegar engu um það að með þessu er verið að selja til yfirþjóðlegrar stofnunar mikið vald til þess að seilast hér inn í innviði fjármálakerfisins á Íslandi ef slíkar aðstæður skapast,“ sagði hann og bætti við að hann teldi slíkt ekki hægt að óbreyttri stjórnarskránni.

Vakti Össur athygli á því hvernig Norðmenn hefðu staðið að málum vegna sama máls. Ríkisstjórn Noregs hefði í gær lýst því yfir að um væri að ræða svo mikið framsal valds að hún treysti sér ekki til þess að leggja málið fyrir norska þingið nema það væri gert á grundvelli sérstaks ákvæðis í þarlendri stjórnarskrá sem heimilaði slíkt en kvæði jafnframt á um að 3/4 allra þingmanna þyrfti til samþykktar. „Því miður hefur stjórnarskrá okkar ekkert slíkt ákvæði og þess vegna tel ég að þetta sé ekki hægt nema að við breytum stjórnarskránni áður.“

mbl.is