Fundað um vefsíðu Ríkis íslams

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. Norden.org/Heidi Orava

„Við ætlum að funda um málið í nefndinni á mánudaginn og hugmyndin er að þessi liður verði opinn fjölmiðlum. Við höfum mikinn áhuga á að setja okkur betur inn í þetta mál og ætlum að fá á fund okkar gesti sem geta varpað góðu ljósi á það.“

Þetta segir Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, í samtali við mbl.is en fundað verður í nefndinni á mánudaginn um vefsíðu sem hýst var hér á landi til skammst tíma undir íslensku léni sem tengdist hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams. 

Hýsingaraðili vefsíðunnar hér á landi ákvað að hætta að þjónusta hana þegar honum varð ljóst hvert efni hennar þar sem viðskiptaskilmálar hefðu verið brotnir. Í kjölfarið ákvað ISNIC að loka lénunum Khilafah.is og Khilafa.is sem tengd voru síðunni á þeim forsendum að notkun þeirra færi gegn íslenskum lögum.

Eins og mbl.is greindi frá boðaði Höskuldur á síðasta mánudag að fundur yrði haldinn í umhverfis- og samgöngunefnd um málið við fyrsta tækifæri.

mbl.is