Hvers vegna er gosmóðan blá?

Blá móða yfir Holuhrauni.
Blá móða yfir Holuhrauni. Ljósmynd/NASA

 Hvers vegna er móðan frá eldstöðvunum í Holuhrauni blá? „Hún er reyndar blá á sama hátt og himininn er blár. Litur á efni eða hlut er að mestu leyti ákvarðaður af því hvernig efnið drekkur í sig litrófið,“ skrifar Haraldur Sigurðsson, eldfjallafræðingur á bloggsíðu sína.

Undanfarna daga hefur blá gosmóða frá Holuhrauni legið yfir landinu. Í höfuðborginni hefur hún verið nokkuð greinileg síðustu daga og í gær var mengunin mikil á Þórshöfn og í nágrenni. Í gærkvöldi var svo mikil mengun vegna gossins á Ísafirði og Kirkjubæjarklaustri, svo dæmi séu tekin.

„Rauður bolti er rauður vegna þess að hann drekkur í sig alla liti litrófsins NEMA þann rauða,“ útskýrir Haraldur á bloggi sínu. „Rauða ljósið endurkastast frá boltanum og það er því liturinn sem við sjáum. Ljósið sem kemur frá sólinni er hvítt, en er reyndar í öllum regnbogans litum, eins og Isaac Newton sýndi fram á, fyrstur manna.“

 Lofthjúpurinn inniheldur margar tegundir gaskenndra efna. „Þegar sólarljósið berst inn í lofthjúpinn, þá dreifist hluti af ljósinu, en efni í lofthjúpnum drekka í sig annan hluta ljóssins.  Aðeins um 75% af ljósinu berst alla þeið niður að yfirborði jarðar. Himinninn er blár vegna þess að gas og frumefni í lofthjúpnum drekka í sig flestar bylgjulengdir litrófsins nema bláa litinn. Sá blái er á þeim hluta litrófsins sem hefur mun styttri bylgjulengd (um 400 nm) en til dæmis rautt og grænt. Hvort það eru mólekúl, agnir eða gas frumefni í lofthjúpnum, þá hafa þau sömu áhrif á litróf sólarljóssins. Móðan frá eldgosinu samanstendur af bæði dropum, mólekúlum og gaskenndum frumefnum, sem dreifa og drekka í sig itróf sólarljóssins á ýmsan hátt.  En eldfjallsmóðan drekkur ekki í sig bláa hluta litrófsins og því er móðan bláleit,“ skrifar Haraldur.

Umtalsverð mengun víða í dag

Samkvæmt upplýsingum frá almannavörnum hefur gasmengun frá Holuhrauni hefur verið umtalsverð víða á landinu undanfarna daga. Í gærkvöldi mældust há mengunargildi á Kirkjubæjarklaustri, á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu, á Ísafirði auk Norðurlands. Búast má við svipuðu ástandi í dag.

Mælingar á brennisteinsdíoxíði (SO2) eru á 22 nettengdum mælistöðvum víða um land og  má nálgast upplýsingar um styrk SO2 á www.loftgæði.is , auk þess eru 24 mælar sem eru ekki nettengdir og því ekki hægt að streyma mæligögnum samstundis á vefinn. Þeir mælar eru vaktaðir og þegar gildin gefa til kynna hækkandi SO2 styrk er almenningi tilkynnt um það. Í gærkvöldi komu slík boð frá Ísafirði og voru SMS boð send í farsíma á Ísafirði og nágrenni um varnir og viðbrögð vegna mengunarinnar, auk þess sem upplýsingar voru settar á vef almannavarna um eldgosið og á Facebook. 

Það er Umhverfisstofnum sem fylgist með styrk SO2 á landinu og er fólk hvatt til að fylgja ráðleggingum sóttvarnalæknis, Umhverfisstofnunar og almannavarna um áhrif  SO2 á heilsufar og viðbrögð. Einstaklingar sem telja sig finna fyrir óþægindum af völdum SO2 mengunar eru hvattir til að hafa samband við heilsugæsluna.Á vef almannarna um eldgosið er hægt að nálgst upplýsingar um loftgæði og annað varðandi upplýsingar um loftgæði  

Þá hefur Veðurstofan hannað sérstakt skráningarform og getur almenningur látið vita af brennisteinslykt vegna eldsumbrotanna í Holuhrauni.

Gosmengunarsý yfir Reykjavík í gær.
Gosmengunarsý yfir Reykjavík í gær. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson
Grágult mengunarský yfir Þórshöfn í gær.
Grágult mengunarský yfir Þórshöfn í gær. mbl.is/Líney
mbl.is