Skora á alla að loka á deildu.net

Deildu.net
Deildu.net

„Við vonumst eftir því að önnur fjarskiptafyrirtæki en þau sem úrskurðurinn lítur að muni fallast á það að fylgja fordæminu og við höfum nú þegar skorað á þau að gera það,“ segir Guðrún Björk Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri STEF. 

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur hef­ur lagt fyr­ir Sýslu­mann­inn í Reykja­vík að leggja lög­bann við þeirri at­höfn Voda­fo­ne og Hringdu að veita viðskipta­mönn­um sín­um aðgang að deildu.net og Pira­tebay, en þar er deilt höf­und­ar­vörðu efni. Hvorugt fjarskiptafyrirtækjanna hefur lokað aðgangi að síðunum, enda hefur sýslumaður ekki lagt á lögbann.

„Við ásamt þeim rétthafasamtökum sem hófu með okkur þetta mál; Samband íslenskra kvikmyndaframleiðanda, SMÁís - samtök myndrétthafa og Félag hljómplötuframleiðanda höfum verið að ráða ráðum okkar um næstu skref,“ segir Guðrún, en málinu var vísað til sýslumanns og mun hann boða fyrirtöku. „Við bíðum bara eftir því núna og vonum að það verði á allra næstu dögum,“ segir Guðrún. 

Höfðuðu mál á hendur fimm fjarskiptafyrirtækjum

Upphaflega var lögbannskrafan lögð fram þann 6. september 2013. Guðrún segir að þá hafi verið ákveðið að fara í lögbannsmál á hendur fimm fjarskiptafyrirtækjum; Símanum, 365 miðlum, Tal, Vodafone og Hringdu. „Á þeim tíma hugleiddum við að taka Nova líka en þá voru þeir aðallega í farsímaþjónustu,“ segir Guðrún. „En engu að síður lítum við þannig á að fordæmið gildi jafnt gagnvart öllum fjarskiptafyrirtækjum.“

Úrskurðurinn lítur aðeins að Vodafone og Hringdu eins og stendur, en stjórnendur 365 miðla ákváðu strax í upphafi að hlíta lögbanninu. Þá lýsti dómari í málinu gegn Tal sig vanhæfan, svo málið bíður enn í dómskerfinu að sögn Guðrúnar. Ef stjórnendur Tals fallast ekki á að hlíta fordæminu mun væntanlega þurfa að skipa nýjan dómara. Vegna formgalla var máli Símans vísað frá, en hafa stefnendur óskað eftir endurupptöku.

Guðrún segir ferlið hafa verið langt og strangt, og segir hún það sýna sig að lögbannsleiðin sé ekki mjög skilvirk. „Þetta er búið að taka langan tíma, kosta okkur mjög mikla fjármuni og fara margar krókaleiðir í kerfinu. Það er greinilegt að við þurfum að leita annarra leiða til að koma í veg fyrir þessa starfsemi.“

Vinna að því að takmarka ólöglegt niðurhal á netinu

„Ég heyri ekki annað en að í okkar geira vilji menn beita sér gegn þessum glæpum,“ segir Guðrún. Hún segir þó margt þurfa að koma til svo að hægt verði að stoppa ólöglega dreifingu efnis. „Það þarf að vera meiri fræðsla um höfundarétt og hugverkarétt, jafnvel fyrir grunnskólabörn. Svo þarf að koma til stuðningur stjórnvalda við löglega starfsemi, meðal annars með því að uppræta ólöglega starfsemi. Loks þarf að reyna að skapa umhverfi sem er hvetjandi fyrir fólk til að fara út í það að bjóða upp á efni löglega.“

Þegar er starfandi nefnd innan innanríkisráðuneytisins, undir formennsku Brynjars Níelssonar, sem vinnur að því að koma með tillögur um hvernig haga skuli meðferð og rannsóknum mála til að takmarka ólöglegt niðurhal á netinu. Þá er það skoðað hvort hægt sé að koma á frekari sérhæfingu innan lögreglu og ákæruvalds á þessum tegundum tölvuglæpa. 

Guðrún Björk Bjarnadóttir
Guðrún Björk Bjarnadóttir
Unnið er að því innan innanríkisráðuneytisins að koma með tillögur …
Unnið er að því innan innanríkisráðuneytisins að koma með tillögur um hvernig haga skuli meðferð og rannsóknum mála til að takmarka ólöglegt niðurhal á netinu AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert