Landsbankamálið dómtekið

Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, (t.h.) ásamt verjanda sínum, Sigurði …
Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, (t.h.) ásamt verjanda sínum, Sigurði G. Guðjónssyni (í miðið) við aðalmeðferð málsins. mbl.is/Golli

Munnlegum málflutningi í markaðsmisnotkunarmáli sérstaks saksóknara gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, og þremur undirmönnum hans lauk nú á sjötta tímanum. Aðalmeðferð málsins er þar með lokið og hefur það verið dómtekið.

Þetta var ellefti dagur aðalmeðferðarinnar sem hófst 1. október sl. Allir sakborningar krefjast sýknu og að málskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Sér­stak­ur sak­sókn­ari ákærði Sig­ur­jón og Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumann eigin fjárfestings bankans, Júlíus S. Heiðarsson og Sindra Sveinsson, fyrrverandi starfsmenn eigin fjárfestinga, fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008. Málið er yfirgripsmikið og flókið, enda eitt stærsta sakamál sem sérstakur saksóknari hefur höfðað.

Sigurjón ávarpaði dóminn þegar saksóknari og verjendur höfðu lokið andsvörum, og áður en málið var dómtekið. Hann sagði m.a. allir hefðu tekið  ákvarðanir út frá bestu hagsmunum Landsbankans. „Þetta eru bara strákar sem eru að vinna eftir sinni bestu getu,“ sagði Sigurjón um undirmenn sína.

Hann gagnrýndi ákæruvaldið fyrir að segja hálfsannleik í ákærunni, þ.e. sleppa atriðum sem túlka mætti sakborningum í hag.

Sigurjón sagði ennfremur að ákæruvaldið hefði ekki tekist að leggja fram sönnunargögn sem sýni fram á að verð á eigin hlutbréfum Landsbankans væri handstýrt að hans undirlagi; ekki tölvupóstar, ekki fundargerðir eða vitni. Hann sagði að menn hefðu ekki verið að skipuleggja neina markaðsmisnotkun heldur einfaldlega verið að vinna eftir skipulagi sem var þegar til staðar.

„Fyrir hvað er ég ákærður?“

Helgi Sigurðsson, verjandi Júlíusar, sagði að það væri sérstök upplifun fyrir verjanda, eftir að hafa lesið og farið yfir öll gögnin, sem eru mörg þúsund blaðsíður, að skjólstæðingur sinn spyrji í fyllstu einlægni: „Fyrir hvað er ég ákærður?“

Helgi gagnrýndi málatilbúnað sérstaks saksóknara og sagði að ekkert hefði verið hlustað á skýringar Júlíusar. Hann sagði að ákæruvaldinu hefði tekist að gera einföld mál flókin og flókin mál óskiljanleg. Helgi sagði að Júlíus mótmælti málatilbúnaði ákæruvaldsins sem röngum og ósönnum.

Ákæran byggi á eftiráspeki

Reimar Snæfells Pétursson, verjandi Sindra, tók í svipaðan streng. Sagði ákæru saksóknara byggja á eftiráspeki og að ákært hefði verið út frá fyrirfram gefinni niðurstöðu. Hann sagði óréttlátt að horfa til eftiráspeki í sakamálaum, sérstaklega væri það óréttlætanlegt gagnvart þeim sem ættu frelsi sitt í húfi.

Reimar gerði tölfræðiupplýsingar saksóknara að umtalsefni, en hann sagið að sá sem hefði búið til Kauphallarherminn margumrædda hefði ekki haft neina sérþekkingu á verðbréfaviðskiptum. Hann benti á mikilvægi þess að stemma af alla útreikninga en sagði að það hefði ekki verið gert. Í raun sagði Reimar, að ákæran byggði á óafstemmdum útreikningum eins manns sem byggi ekki yfir sérfræðiþekkingu á umræddum viðskiptum.

Reimar sagði ennfremur, að öll meðferð ákæruvaldsins á tölum hefði valdið honum ugg. Hún væri beinlínis blekkjandi og villandi. Hún gæti þar af leiðandi ekki verið grundvöllur sakfellingar í sakamáli.

Þá tók Reimar fram, að viðskipti Sindra á ákærutímabilinu hefðu verið tiltölulega lítil samanborið við viðskipti Júlíusar.

Vilja að horft sé á heildarmyndina

Verjendur sakborninga gerðu það allir að umtalsefni að saksóknari gerði greinarmun á svokölluðum pöruðum viðskiptum og tilkynntum viðskiptum. Þeir sögðu að menn yrðu að horfa á heildarmyndina, en líta ekki einvörðungu til afmarkaðra viðskipta.

En ákæran byggir á því að ákærðu hefðu haldið uppi hlutabréfaverði í bankanum í sjálfvirkum pörunarviðskiptum. Um hafi verið að ræða ólögmætt inngrip í gangverk markaðarins, að því er segir í ákærunni.

Einnig tóku þeir fram að viðskiptin hefðu ekki farið fram með leynd heldur fyrir augliti markaðarins. Eftirlitsaðilar hefðu vitað að bankinn væri með viðskiptavakt í eigin bréfum og stundaði viðskipti með eigin bréf. Það hefði hvorki verið ólöglegt né ólöglegt og einvörðungu verið að vinna samkvæmt skipulagi sem var þegar til staðar.

Eins og flugstjóri í háska

Arnþrúður Þórarinsdóttir saksóknari sagði í seinni ræðu sinni, að ákærðu hefðu hagað sér eins og flugstjóri í háska í aðdraganda hrunsins. „Þegar flugvélin er að missa hæð, og í stað þess að undirbúa nauðlendingu, þá brýturðu alla viðvörunarmæla,“ sagði hún.

„Stóra spurningin sem blasir við er af hverju? Af hverju að kaupa helminginn af eigin hlutabréfum Landsbankans, sem seld eru í sjálfvirkum pörunarviðskiptum í Kauphöll, en selja síðan sömu bréf í utanþingsviðskiptum,“ spurði Arnþrúður og bætti við að sakborningarnir hefðu ekki getað komið með viðhlítandi svör. Ekki dugi að segja: „Svona var þetta bara í Landsbankanum.“ Bankinn hefði tapað tugum milljarða vegna svona háttsemi sem væri óeðlileg.

Hún sagði að svarið lægi í því sem fram komi í ákærunni, þ.e. að ákærðu hefðu stundað kerfisbundna markaðsmisnotkun með því að handstýra verði hlutabréfa bankans og halda hlutabréfaverðinu uppi. „Ekkert af því sem komið hefur fram í málflutningi verjanda hefur hnekkt málflutningi ákæruvaldsins í málinu,“ sagði Arnþrúður og lagði málið í dóm.

Verjendur eru á allt öðru máli, en líkt og Jóhannes Rúnar Jóhannsson, verjandi Ívars, sagði í morgun, þá ber að sýkna alla ákærðu þar sem þeir hefðu hvorki stundað óeðlileg viðskipti né brotið lög.

Nú er það hlutverk dómara að komast að niðurstöðu.

mbl.is