„Það voru engin lögbrot“

Jóhannes Rúnar Jóhannsson (t.v.) ásamt skjólstæðingi sínum, Ívari Guðjónssyni í …
Jóhannes Rúnar Jóhannsson (t.v.) ásamt skjólstæðingi sínum, Ívari Guðjónssyni í héraðsdómi. mbl.is/Árni Sæberg

„Það var ekkert óeðlilegt í gangi. Það var engin skipulögð brotastarfsemi. Það voru engar annarlegar hvatir og það voru engin lögbrot,“ sagði Jóhannes Rúnar Jóhannsson, verjandi Ívars Guðjónssonar, fyrrverandi forstöðumanns eigin viðskipta Landsbankans, á ellefta og síðasta degi markaðsmisnotkunarmáls sérstaks saksóknara gegn fyrrverandi Landsbankamönnum.

Um er að ræða mál embættisins gegn Sigurjóni Árnasyni, fyrrverandi bankastjóra Landsbankans, Ívari, Júlíusi S. Heiðarssyni og Sindra Sveinssyni, en þeir tveir síðastnefndu eru fyrrverandi starfsmenn eigin fjárfestinga bankans. Þeir eru ákærðir fyr­ir markaðsmis­notk­un á tíma­bil­inu 1. nóv­em­ber 2007 til 3. októ­ber 2008 og eru þeir sakaðir um að hafa hand­stýrt verðmynd­un hluta­bréfa í Lands­bank­an­um og með því blekkt fjár­festa, kröfu­hafa, stjórn­völd og sam­fé­lagið í heild.

Jóhannes talaði í tæpan tvo og hálfan tíma, en málflutningurinn hófst klukkan 9 í morgun. Hann sagði að sýkna bæri Ívar, og í raun alla ákærðu í málinu, þar saksóknara hefði ekki tekist að sanna lögbrot. Hann fór ítarlega yfir framlögð gögn og vitnisburð þeirra sem komu fyrir dóminn auk þess sem hann gagnrýndi og mótmælti málatilbúnaði saksóknara, en hann sagði að saksóknari hefði ekki rannsakað málið hlutlægt.

Tilraunastarfsemi og ævintýramennska

Hann sagði að hugtakið markaðsmisnotkun ætti sér ekki langa sögu í íslenskri löggjöf, en það hafi verið innleitt árið 1996. Þá benti Jóhannes á dómafordæmi, bæði hér á landi og erlendis í slíkum málum væru fá. Jóhannes sagði að málið byggi á byltingarkenndum hugmyndum og að sakargiftir í málinu fælu í raun í sér ákveðna tilraunastarfsemi, „ég vil leyfa mér að segja ævintýramennsku“. Hann tók fram að ef sakborningar verði dæmdir þá yrði það dómur án nokkurrar hliðstæðu.

Jóhannes sagði að það bæri að dæma allan vafa sakborningi í hag og að það væri hlutverk saksóknara að sýna fram á og sanna sekt ákærðu. Það hefði honum ekki tekist. Ekkert væri hæft í því að annarlegar viðskiptalegar forsendur lægu að baki viðskiptunum sem ákært væri fyrir.

Þá sagði hann útilokað að ákærðu hefðu getað séð fyrir falla bankans í byrjun október 2008.Jóhannes benti á að Landsbankinn, sem og önnur fjármálafyrirtæki, þurfi að lúta miklu eftirliti, bæði innra og ytra, en sé Kauphöllin og Fjármálaeftirlitið dæmi um ytra eftrlit. Hann sagið að engar athugarsemdir hefðu verið gerðar á tímabilinu sem ákæran tekur til. Enda hefðu engar reglur verið brotnar, unnið hafi verið í samræmi við gildandi fyrirkomulag og ekkert óeðlilegt hefði verið í gangi.

Hann furðaði sig á því hvers vegna Yngvi Örn Kristinsson, fram­kvæmda­stjóri verðbréfa­sviðs Lands­bank­ans, og yfirmaður Ívars, hefði ekki verið ákærður, þar sem hann hefði getið horft yfir svokallaða Kínamúra á milli deild og haft aðgang að upplýsingum sem Ívar hefði ekki haft aðgang að.

Ekkert samsæri

Það sé tvennt ólíkt, að bera saman hvað sé eðlilegt eða óeðlilegt í bankastarfsemi, sérstaklega í ljósi þeirra atburða sem áttu sér stað, og þess hvort lög hafi verið brotin á umræddum tíma.Hann sagðist ekki sjá að það væri nokkur leið að sakfella Ívar í málinu. „Það var ekkert samsæri, hann kom ekki að sjálfvirkum pörunarviðskiptum,“ sagið Jóhannes og bætti við að öll viðskipti hefðu átt sér stað á eðlilegum viðskiptalegum forsendum. „Því ber að sýkna skjólstæðing minn af öllum kröfum ákæruvaldsins,“ sagði hann við lok málflutningsins.

Aðalmeðferðin heldur áfram og næstur á dagskrá er Helgi Sigurðsson, verjandi Júlíusar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert