Eru ekki að fara að kaupa flatskjá

Katrín Jakobsdóttir gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í ræðu sinni.
Katrín Jakobsdóttir gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í ræðu sinni. mbl.is/Árni Sæberg

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í ræðu sinni á flokksráðsfundi flokksins í kvöld. 

Í ræðu sinni gagnrýndi Katrín m.a. skattabreytingar ríkisstjórnarinnar, viðhorf hennar til  menntamála og stefnu stjórnvalda til loftlagsbreytinga og þróunaraðstoðar.

„Okkur er sagt að skattabreytingar ríkisstjórnarinnar eigi að auka ráðstöfunartekjur heimilanna. En hvaða heimili, verð ég að spyrja, eru það heimili öryrkja, heimili leigjenda, heimili venjulegs fólks sem allar kannarnir sýna að eyðir stórum hluta tekna sinna í mat og er ekkert að fara að kaupa flatskjá eða aðrar slíkar græjur á næstunni. Nei, ráðstöfunartekjur þessara hópa og margra annarra munu líklega ekki aukast,“ sagði Katrín. 

Ekki ánægð með eftirmann sinn

Katrín gagnrýndi einnig eftirmann sinn, Illuga Gunnarsson menntamálaráðherra.

„Hvað er það þegar menntamálaráðherra fer um landið að kynna svokallaðar umbætur í menntamálum með Hvítbók í hendi sinni á sama tíma og nemendaígildum er fækkað í framhaldsskólum, aðgengi eldri nemenda er takmarkað, og virðisaukaskattur á bækur  hækkar? “

Katrín sakaði forsætisráðherra um ósamræmi milli orða og gjörða þegar það kemur að loftlagsmálum. Benti hún á að á meðan forsætisráðherra ræddi loftlagsmál á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna og lýsti þar yfir stuðningi við kolefnisskatta og auknar aðgerðir í loftlagsmálum sýni stefna ríkisstjórnarinnar allt önnur sjónvarmið. 

„Kolefnisgjöld voru ekki hækkuð heldur lækkuð síðastliðið vor og losunargjöld fyrirtækja vegna gróðurhúsalofttegunda voru lækkuð í fjárlögum 2014 og verða aftur lækkuð í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Það stendur líka til að kippa Loftslagssjóði úr sambandi og minnka framlög til almenningssamgangna. Bíddu hvað er þetta?“ spurði Katrín. 

Sjá engar leiðir til að reisa nýjan spítala

Nýr landspítali kom einnig við sögu í ræðu Katrínar í kvöld. Sagði hún að þó svo að nýr spítali sé forgangsmál allra ráðherra sjá þeir samt engar leiðir til að reisa hann.

 „Nema þá með því að selja aðrar eignir, t.d. hluta úr Landsvirkjun sem er gríðarlega mikilvægt fyrirtæki þjóðhagslega,“ sagði Katrín og benti á að ágóði auðlegðarskatts í fimm ár, sem hefur nú verið afnuminn, myndi nægja til þess að byggja nýjan spítala. 

„Það er nokkuð ljóst að fögur orð eru látin falla algjörlega án tillits til þess hvort þeim er fylgt eftir með gjörðum,“ sagði Katrín.

Ísland langt á eftir þegar það kemur að framlögum til þróunarvinnu

Katrín gagnrýndi einnig harðlega stefnu stjórnvalda þegar það kemur að þróunaraðstoð. Benti hún á að ríkisstjórnin væri nú að færast fjær markmiðum Sameinuðu þjóðanna um að verja 0,7% af landsframleiðslu í þróunarsamvinnu. Sagði Katrín að framlög til þróunarsamvinnu eru nú aðeins 0,22%, sem er langt frá þeim 0,35% sem gert er ráð fyrir í þeirri Þróunarsamvinnuáætlun sem ríkisstjórnin á að starfa eftir.

Benti hún einnig á að á fjárlögum fyrir 2015 eru framlögin 300 milljónum króna lægri en þau ættu að vera samkvæmt tímasettri áætlun um þróunarsamvinnu sem samþykkt var í tíð síðustu ríkisstjórnar.

„Í staðinn er fyrirhugað að setja aukið fjármagn í NATO, sem kallar eftir auknum framlögum aðildarríkja sinna fyrir framtíðar hernað. NATO sér fram á aukinn „bisness“ á næstunni og þá höfum við forgangsröðun á hreinu. Þá mun Ísland, þetta litla ríki, leggja 450 milljónir króna á nokkrum árum allt í allt, í nýjar höfuðstöðvar NATO,“ sagði Katrín. „Þannig er hin raunverulega forgangsröðun og gildir þá einu hvað við göngum marga metra með vatnsfötu á hausnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert