Háður töfrum óperunnar

Hljóðritun óperunnar Ragnheiðar Jóhann Smári Sævarsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Björn …
Hljóðritun óperunnar Ragnheiðar Jóhann Smári Sævarsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Björn I. Jónsson, Þóra Einarsdóttir, Friðrik Erlingsson, Petri Sakari, Gunnar Þórðarson, Elmar Gilbertsson, Viðar Gunnarsson og Sinfóníuhljómsveit Íslands á bak við hópinn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Þetta hefur verið eitt stórt ævintýri, alveg frá konsertfrumflutningnum í Skálholti í fyrra, sviðsetningu Íslensku óperunnar í vor og að upptökunum núna, sem hafa gengið mjög vel,“ segir Friðrik Erlingsson, annar höfundur óperunnar Ragnheiðar ásamt Gunnari Þórðarsyni.

Hljóðritun óperunnar lauk í gær í Norðurljósasal Hörpu, með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Óperukórnum ásamt níu einsöngvurum undir stjórn Petris Sakaris hljómsveitarstjóra. Síðar í vetur kemur út vegleg þriggja diska CD-útgáfa ásamt bók með texta óperunnar á íslensku og ensku. Heildarkostnaður við hljóðritun og framleiðslu er áætlaður um 13 milljónir króna.

„Eftir tvær vikur opnum við fyrir hópfjármögnun á vef Karolina Fund. Þetta er afar dýr framkvæmd og því leitum við eftir stuðningi almennings með því að forselja hluta upplagsins, enda voru það ekki síst hin frábæru viðbrögð almennings sem hvöttu okkur til að hljóðrita verkið og skila því frá okkur í bestu mögulegu gæðum. Þrátt fyrir góðan styrk frá ríkisstjórninni og örfáum einkaaðilum vantar okkur enn herslumuninn. Við biðlum því til almennings og aðdáenda Ragnheiðar,“ segir Friðrik.

Vongóðir að ná fjármögnun

Þeir félagar setja markið á 25 þúsund evrur, tæpar fjórar milljónir íslenskra króna. „Við höfum fulla trú á þeirri leið sem Karolina Fund hefur lagt til og erum vongóðir um að ná þessu marki,“ bætir Friðrik við.

Hljóðblöndun og öll eftirvinnsla fer fram hérlendis og er undir stjórn Sveins Kjartanssonar hjá Stúdíó Sýrlandi.

Friðrik segir að þeir Gunnar hafi verið djúpt snortnir yfir þeim viðbrögðum sem óperan fékk hér á landi og spenntir fyrir þeim áhuga sem orðið hefur vart erlendis. Breskt óperutímarit, Opera Now, og þýskt, Opernwelt, fóru lofsamlegum orðum um verkið og líkur eru á að óperan verði sett upp erlendis haustið 2015, en Friðrik getur ekki gefið meira uppi um það að svo stöddu.

Vinna saman að næstu óperu

En ætla þeir félagar að halda samstarfinu áfram?

„Við Gunnar erum að skoða hugmyndir að næsta verki, en getum þó ekki einbeitt okkur að því fyllilega fyrr en við höfum kvatt hana Ragnheiði okkar formlega, gengið frá upptökum og sent hana frá okkur í bestu mögulegu gæðum.“

Eitt er víst að næsta ópera mun byggjast á atburðum úr sögu lands og þjóðar. Friðrik segir þá báða hafa verið ástfangna af sögu Ragnheiðar. „Svona verk verður ekki unnið nema með hjartanu, svo efni nýrrar óperu verður valið út frá því.“

Upplifun að sjá verkið blómstra

Friðrik segir að óperutexti, libretto, sé í raun langt söguljóð. En með tónlistinni og síðan túlkun söngvaranna við flutning verksins komi allt saman til að skapa hina voldugu töfrandi heild sem óperuformið er.

„Og það er stórbrotið ferli og mikil upplifun að sjá verkið svo blómstra og taka flugið í höndum slíkra listamanna sem Petri Sakari og hljóðfæraleikara Sinfóníunnar, meðlima Óperukórsins og okkar stórfenglegu einsöngvara. Það er auðvelt að verða háður þeim töfrum og vilja halda áfram,“ segir Friðrik að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert