LH fylgir ekki eigin reglum

Frá landsmóti hestamanna árið 2012.
Frá landsmóti hestamanna árið 2012. mbl.is/Styrmir Kári

Á fundi stjórnar Landssambands hestamannafélaga í gær var ákveðið samhljóða að ganga til viðræðna við hestamannafélagið Sprett varðandi landsmót 2016 og við hestamannafélagið Fák um landsmót 2018. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem stjórnin sendi frá sér í gær. „Stjórn Landssambands hestamannafélaga vonast til þess að um þetta muni ríkja sátt á meðal áhugamanna um íslenska hestinn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Formaður Landssambands hestamannafélaga, Haraldur Þórarinsson, tilkynnti Skagfirðingum að mótið yrði ekki haldið á Vindheimamelum, þrátt fyrir að undirrituð hefði verið viljayfirlýsing þess efnis fyrr á árinu, eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær.

LH fylgir ekki reglum

Samkvæmt reglugerð Landssambands hestamannafélaga (LH) skal velja landsmótsstað að minnsta kosti fimm árum áður en landsmótið er haldið. Ganga skal frá samningum við mótshaldara að minnsta kosti þremur árum áður. Slíkt var ekki gert heldur ritað undir umrædda viljayfirlýsingu.

Landsmót hestamanna ehf. (LM ) er rekstraraðili landsmótanna. Félagið er í eigu LH, sem á 2/3 hluta, og Bændasamtaka Íslands (BÍ), sem eiga 1/3 hluta.

„Landsmót ehf. var í greiðsluerfiðleikum áramótin 2013-2014 og því treystum við okkur ekki til að ganga frá samningum við mótshaldara í Skagafirði. Þess vegna var viljayfirlýsing undirrituð. Við vildum bíða með að skrifa undir samninga þar til landsmótinu á Gaddstaðaflötum yrði lokið. Það kom ekki eins vel út og við ætluðum og því var þessi ákvörðun tekin,“ segir Haraldur Þórarinsson, formaður Landssambands hestamannafélaga.

Hann segir að eftir síðasta landsmót hafi verið komin ákveðin þreyta í hreyfinguna, bæði hesteigendur og gesti mótsins. „Við lásum í aðstæðurnar, að við þyrftum að gera breytingu á mótshaldinu til að halda áfram að stækka viðburðinn svo hann nái að þjóna tilgangi sínum. Það má ekki gleymast að mótin voru stofnuð í upphafi til að efla umgjörð um íslenska hestinn og fjölga fólki í hestamennskunni. Þess vegna megum við ekki lenda í einhverri pólitík sem snýst alfarið um staðarval. Þetta snýst um að hafa umgjörðina sem besta, bæði fyrir hesta og menn.“

Haraldur segir stjórnin hafi reynt að fara eftir reglugerð LH en vegna fyrrgreindra atriði hafi ekki verið forsendur fyrir því.

Spurður hvort ekki þurfi jafnvel að breyta reglugerð LH er varðar val á stað fyrir landsmót, svarar hann því til að hann telji reglurnar nógu skýrar. „Hins vegar verður allt landsmótið til umræðu á næsta landsþingi hestamannafélaga. Þar er vettvangur til að velta því upp.“

„Algjör skandall“

„Það er algjör skandall ef menn ætla virkilega að færa þessi mót alfarið til höfuðborgarinnar með fullri virðingu fyrir borginni. Hestamennskan er stunduð um allt land,“ segir Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra. Hann blæs á þá fullyrðingu að aðbúnaðurinn á Gaddstaðaflötum sé ekki nógu góður og bendir á mikla uppbyggingu á staðnum m.a. reiðhöll, stórt hótel inni á svæðinu og úrvalsvelli sem sönnuðu gildi sitt á síðasta móti. Hann bendir á að öll þau landsmót sem haldin hafa verið á Gaddstaðaflötum hafa skilað hagnaði, auk þess að eiga met í fjölda gesta.

„Ef stjórnin ætlar virkilega að svíkja Skagfirðinga með mótið 2016 þá verða menn að skoða sinn gang.“

Landsmótið í brennidepli

Tíu af þeim 54 tillögum sem lagðar verða fyrir þingið snúast um landsmótið með einum eða öðrum hætti.

Hestamannafélögin Geysir, Háfeti, Logi, Smári, Sindri og Trausti leggja til að Landsmót ehf. verði lagt niður. „Eins og staðan er í dag fer ágóði landsmótanna, ef einhver er, til að halda þessu fyrirtæki gangandi í stað þess að renna til hestamannafélaganna í landinu,“ stendur í greinargerð. Í annarri tillögu frá þessum félögum er farið fram á að ekki skuli innheimt keppnisgjöld af keppendum á landsmóti.

Þá er skorað á LH og Bændasamtökin að halda ráðstefnu um framtíð landsmóts fyrir áramót.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert