Lokunarsvæðið minnkað

LANDSAT 8 gervitunglamynd USGS & NASA, unnin af eldfjallafræði og …
LANDSAT 8 gervitunglamynd USGS & NASA, unnin af eldfjallafræði og náttúrvárhópi Jarðvísindastofnunar. Myndin var tekin 15.10.2014 klukkan 12:33 Af Facebooksíðu Jarðvísindastofnunar

Með nýju hættumati vegna umbrota í Bárðarbungu og Holuhrauni hefur það svæði sem hingað til hefur verið lokað verið minnkað en svæðið í kring er nú skilgreint sem hættusvæði. Þetta þýðir að það er minna svæði sem er algjörlega lokað öðrum en vísindamönnum en svæði sem áður voru ekki talin hættuleg eru nú skilgreind sem hættuleg. Eins hefur hluta af fyrra lokunarsvæði verið breytt í hættusvæði sem þýðir að almenningur getur farið þar inn en á eigin ábyrgð. 

Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík, segir að um endurmat almannavarna á aðstæðum sé að ræða. Má þar nefna reynslu af þeim lokunum sem hafa verið í gildi undanfarnar vikur. Eins nýjum upplýsingum sem eru fyrirliggjandi um hættuna en þær upplýsingar eru nánari og betri en var í upphafi, segir Svavar. 

Hann segir að það verði einnig að taka tillit til þess að vetur er að skella á með tilheyrandi snjó og ófærð. Þetta endurmat tekur mið af öllum þessum þáttum, segir Svavar. 

Enn er mikil mengun frá eldgosinu í Holuhrauni og að sögn Svavars er meðal annars tekið tillit til þess við þetta nýja hættumat.

Tilkynnt var um það í morgun að ríkislögreglustjóri og lögreglustjórarnir á Húsavík, Seyðisfirði og Hvolsvelli, í samvinnu við fulltrúa Vatnajökulsþjóðgarðs hafa endurskilgreint hættu- og lokunarsvæði norðan Vatnajökuls vegna umbrotanna í Bárðarbungu og Holuhrauni.

Einnig hafa þær reglur sem gilda um aðgang að lokaða svæðinu verið endurskilgreindar. Svæðið er enn lokað öllum nema þeim sem hafa til þess sérstök leyfi og hafa þær reglur verið hertar í ljósi nýs hættumats Veðurstofu Íslands og Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands.

Á grundvelli hættumatsins, þar sem horft er til gasmengunar frá eldgosinu í Holuhrauni og mögulegu sprengigosi með gjóskufalli og jökulhlaupum frá Dyngjujökli eða Bárðarbungu, hefur almannavarnadeild ríkislögreglustjóra ákveðið eftirfarandi skilgreiningar á hættu- og lokunarsvæðum.

Hættusvæði er skilgreint sem það svæði þar sem um helmingslíkur eru á að óholl loftgæði geti myndast, eða í um 60 km fjarlægð frá gosstöðvunum í Holuhrauni.

Auk þess eru flóðfarvegir eftirtalinna vatnsfalla á hálendi innan svæðisins: Skjálfandafljót, Kaldakvísl, Sveðja, Sylgja og Tungnaá. Mestar líkur eru taldar á að hlaupvatn vegna eldgoss í Bárðarbungu fari í Jökulsá á Fjöllum, en ekki er útilokað að það fari til vesturs.

Ekki bannað að fara um hættusvæðið

Innan hættusvæðisins er hætta á að lenda í miklu ( >5 cm) öskufalli ef eldgos verður undir jökli. Umferð um hættusvæðið er ekki bönnuð, en fólk er hvatt til þess að sýna sérstaka árvekni og fylgjast vel með tilkynningum sem kunna berast í gegnum farsíma eða útvarp. Gott er að gefa upp ferðaáætlun og skilja eftir hjá aðilum sem geta gefið upplýsingar til yfirvalda ef breytingar verða á eldvirkninni og vá vofir yfir. Því nær sem farið er lokunarsvæði, því meiri líkur eru á að lenda í mikilli gasmengun og öskufalli ef eldgos nær undir Dyngjujökul. Spár um hvar gasmengunar er að vænta eru birtar á vef Veðurstofu Íslands, segir í tilkynningu frá samhæfingarmiðstöðinni.

Vegna gasmengunar frá eldgosinu í Holuhrauni skal umferð takmörkuð í 25 km fjarlægð frá aðal gosgígnum. Skv. hættumati Veðurstofunnar er um 90% líkur að innan þess svæðis geti myndast varasöm eða hættuleg loftgæði. Auk þess skal vegna mögulegs jökulhlaups takmarka umferð um slóðir sem liggja í flóðafarvegi Jökulsár á Fjöllum. Hætta er á töluverðu öskufalli innan þessa svæðis ef eldgosið nær undir Dyngjujökul ( >10 cm). Nýjar reglur um aðgang að svæðinu taka gildi samhliða tilkynningu um endurskilgreint lokunarsvæði.

Lokunarsvæðið eins og það var áður

Útmörk hættusvæðisins.
Útmörk hættusvæðisins.
Á þessu korti má sjá gráður og mínútur hnitanna fyrir …
Á þessu korti má sjá gráður og mínútur hnitanna fyrir lokunarsvæðið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert