Alvarlegar athugasemdir hunsaðar

Fjölmenni er samankomið á opnum borgarafundi þar sem fjallað er um þá stöðu sem sé komin í málefnum flugvallarins í Vatnsmýri. Samtökin Hjartað í Vatnsmýrinni standa fyrir fundinum, en þau segja að flest bendi til þess að borgaryfirvöld ætli gefa út framkvæmdaleyfi til verktaka á Hlíðarendasvæðinu og loka þar með svokallaðri neyðarbraut.

Með því séu borgaryfirvöld að hunsa með „öllu alvarlegar athugasemdir fjölda aðila úr flugrekstri, sjúkraflutningum og flugöryggismálum,“ að því er þau segja í tilkynningu. 

Samtökin segja að byggð í Hlíðarenda muni ekki ná inn á neyðarbrautina, sem aðeins megi nota í neyðartilvikum, en byggðin muni hins vegar hindra aðflug og brottflug inn á brautina og gera hana með því ónothæfa.

Samtökin segja ennfremur, að þó að brautin sé sjaldan notuð þá megi ekki loka henni. „Allar flugáætlanir farþega- og sjúkraflugs taka mið af því að hún sé til taks. Sé hún ekki til staðar fækkar mjög þeim skiptum sem hægt er að leggja af stað til Reykjavíkur. Brautin skiptir sérstöku máli í verstu veðrum,“ segir í tilkynningu. 

Framsögumenn verða:

  • Björgólfur Jóhannesson, forstjóri Icelandair Group
  • Leifur Magnússon, verkfræðingur og fv. formaður Flugráðs
  • Sigurður Ingi Jónsson, fulltrúi í flugöryggisnefnd Isavia um lokun Neyðarbrautarinnar
  • Bergur Stefánsson, yfirlæknir bráðaþjónustu utan sjúkrahúsa og formaður fagráðs sjúkraflutninga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert