Byssurnar ekki komnar í bílana

Létt vélbyssa af tegundinni MP5.
Létt vélbyssa af tegundinni MP5. Wikipedia

Íslenskum lögreglumönnum hefur að undanförnu verið gert að fara á skotvopnanámskeið vegna nýrra skotvopna sem ráðgert er að verði í lögreglubifreiðum. Skotvopnunum hefur ekki verið komið fyrir í bílunum en þau fengust frá sérsveit einnar Norðurlandaþjóðanna.

Í vikublaði DV sem kom út í dag er umfjöllun um nýju skotvopnin en blaðið segist hafa heimildir fyrir því að um sé að ræða MP5, sem er létt vélbyssa. Á alfræðivefnum Wikipedia segir að MP5 hafi verið hönnuð árið 1964 og tveimur árum síðar hafi þýska lögreglan, landamæraverðir og sérsveit hersins tekið hana í notkun.

Samkvæmt heimildum mbl.is er talsverður fjöldi MP5 kominn til landsins og voru vélbyssurnar keyptar frá sérsveit einnar Norðurlandaþjóðanna. Hafi þær því fengist á góðu verði. Ekki hafa hins vegar verið keyptir svonefndir verðmætaskápar í lögreglubíla, en byssurnar verða geymdar í þeim. Um er að ræða læsta skápa sem hannaðir eru fyrir skotvopn og geymdir í farangursrými lögreglubíla.

Þá hefur verið lögð inn pöntun á sex nýjum sérhönnuðum lögreglubílum frá Volvo. Þykja þeir með allra bestu lögreglubílum á markaðnum.

Endanleg ákvörðun um vopnabúnað í lögreglubifreiðum og hvenær íslenskir lögreglumenn vopnbúast er í höndum ríkislögreglustjóra.

Lögreglubíll.
Lögreglubíll. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert