Hríðskotabyssurnar norsk gjöf

Þýska fyrirtækið Heckler & Koch framleiðir MP5-hríðskotabyssurnar, sem lögreglumenn um …
Þýska fyrirtækið Heckler & Koch framleiðir MP5-hríðskotabyssurnar, sem lögreglumenn um allan heim nota.

Jón F. Bjart­marz, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, segir að 150 hríðskotabyssur sem lögreglan hefur fengið hafi verið gjöf frá norskum yfirvöldum. Hann segir ennfremur, að ekki sé búið að taka ákvörðun um að setja vopn í allar lögreglubifreiðir. Það sé háð ákvörðun einstaka lögreglustjóra, þ.e. hvort þeir geymi vopn í bifreiðum eða á lögreglustöðvum.

Þetta sagði Jón í Kastljósþætti kvöldsins. DV greindi frá kaup­um rík­is­lög­reglu­stjóra á MP5, létt­um vél­byss­um, í dag, en Jón sagði, m.a. í samtali við mbl.is fyrr í dag, að margt í frétt DV orðum aukið.

„Ég notaði nú eiginlega orðið aflað [í samtali við fjölmiðla] í dag, sem kannski olli því að menn töldu að þau hefðu verið keypt. En það er ekki; þau fengust gefins,“ sagði Jón í Kastljósþætti kvöldsins, sem er sýndur á RÚV.

Hann bætti því við að sú fjárveiting sem embætti ríkislögreglustjóra fékk til að efla búnað og þjálfun lögreglumanna á þessu ári, samtals 78 milljónir króna, hefði ekki verið nýtt til að kaupa skotvopn. „Ekki ein króna,“ sagði hann.

Að skjóta fyrst og spyrja svo

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tjáði sig um byssumálið á facebooksíðu sinni í kvöld en hann skrifaði:

„Sumir ættu að fara að venja sig af því ad skjóta fyrst og spyrja svo ...sérstaklega þegar um hríðskotabyssur er að ræða.“

Aðspurður sagði Jón í Kastljósþætti kvöldsins, að Norðmenn hefðu gefið vopnin. Þeir væru að skipta um tegund vopna „þá er oft á tíðum í raun og veru eldri tegundum aflagt og í þessu tilfelli bauðst okkur að fá þau, því það var verið að hætta notkun þeirra. Þetta eru hins vegar nýleg og mjög lítið notuð vopn, og búið að yfirfara þau öll - og þau eru í góðu standi,“ sagði hann.

Lögreglan átt hríðskotabyssur í um 80 ár

Spurður út í notkun almennra lögreglumanna á hríðskotavopnum, sagði Jón að hríðskotabyssur hafi í raun verið til hjá lögreglunni frá því eftir Gúttóslaginn í nóvember 1932. Jón sagði að frá því á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar og til ársins 2000 hafi lögreglan átt um það bil 70 hríðskotabyssur. Þær hafi hins vegar aðeins verið í vörslu lögreglunnar í Reykjavík og ekki dreift um allt land. Þá hafi þær verið sáralítið notaðar. „Þær voru orðnar ónothæfar vegna aldurs og ekki um nýtískuleg vopn að ræða þannig að þeim var aflagt, og þessi vopn komu kannski í sjálfu í staðinn fyrir það,“ sagði Jón.

Hann bætti við, að ef lögreglustjórar telji ekki vera þörf á þessum vopnum, þá verði þau geymd á lager. Breytist sú ákvörðun, sé það í höndum lögreglustjóra að ákveða hvört þau verði geymd á lögreglustöð eða í lögreglubílum.

Jón sagði aðspurður, að vopnabúr lögreglunna hafði minnkað sem nemur hríðskotabyssunum 70 sem var aflagt sökum aldurs.

Lögreglan vill vera óvopnuð

„Ég tel að það sé miklu betra að lögreglan sé með þessar byssur heldur en að lögregluliðin séu að nota riffla sem þeir eru með í dag. Þetta eru vopn sem eru með nákvæmlega sömu kúlum og eru í skammbyssunum. Þar fyrir utan eru þetta miklu auðveldari vopn í notkun, bæði fyrir lögreglumennina að fara með þau, læra á þau og nota þau, þá eru þau miklu öruggari heldur en skammbyssurnar. Þannig að þetta er ákveðin framför,“ sagði hann.

Jón tók fram að lögreglumenn megi aðeins vopnast í ákveðnum tilvikum, og það sé þá ákvörðun lögreglustjóra. Hann segir að það sé ekki verið að breyta þessum reglum, ekki verið að fjölga tilfellum þar sem lögreglumenn haif heimild til að vopnast heldur sé stefnan óbreytt. Þá sé það ekki vilji lögreglunnar að lögreglumenn gangi um vopnaðir dags daglega.

„Lögreglan vill vera óvopnuð við sín störf. Hins vegar er náttúrulega alveg ljóst að það er ekki forsvaranlegt að senda óvopnaða lögreglumenn á móti vopnuðum einstaklingum. Það er hvorki forsvaranlegt fyrir lögreglumanninn né heldur borgarann,“ sagði Jón.

Jón F. Bjart­marz, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, var gestur í …
Jón F. Bjart­marz, yf­ir­lög­regluþjónn hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra, var gestur í Kastljóssþætti kvöldsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert