„Lögreglan alltaf haft vopn“

Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.
Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra. mbl.is/Júlíus

„Lögreglan hefur alltaf haft vopn og meginreglan er sú að þau eru geymd á lögreglustöðvum. Þá eru í gildi reglur frá árinu 1999 um það hvenær lögregla vopnast og er slíkt ekki gert nema brýn ástæða sé til. Það segir sig sjálft að ekki er forsvaranlegt að senda óvopnaða lögreglumenn gegn byssumönnum,“ segir Jón F. Bjartmarz, yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra, um vopnabúnað lögreglu.

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag þá greindi DV frá kaupum ríkislögreglustjóra á MP5, léttum vélbyssum. Jón segir hins vegar margt í frétt DV orðum aukið. Þannig hafi ekki verið keyptar jafn margar byssur og DV heldur fram auk þess sem það sé rangt að sérstök fjárveiting til að bæta búnað og þjálfun lögreglumanna hafi verið notuð til kaupanna. „Engin vopn hafa verið keypt fyrir þessa fjárveitingu. Vopn til lögreglunnar hafa verið keypt á undanförnum áratugum.“

Jón segir að ekki sé verið að breyta neinum reglum um vopnabúnað lögreglunnar, hvenær henni er heimilt að vopnast eða fjölga þeim tilvikum. „Það voru til hríðskotabyssur sem geymdar voru hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, samsvarandi byssur og voru til í áratugi. Þær voru orðnar úreltar og því aflagðar fyrir nokkrum árum.“ Hann bætir við að ekki hafi tekist fyrr að kaupa aðrar þeirra í stað.

Viðbúnaðargetan óviðunandi

Þá vísar Jón í skýrslu Ögmundar Jónassonar, þáverandi innanríkisráðherra, til Alþingis frá árinu 2012 um stöðu lögreglunnar. Í henni segir: „Grunnbúnaður lögreglu til þess að takast á við sérstakar lögregluaðgerðir vegna vopnamála, hryðjuverka og annarra stórfelldra ofbeldisglæpa er mjög takmarkaður, búnaður sem til er þarfnast að mestu leyti endurnýjunar og viðbúnaðargetan er óviðunandi varðandi fyrstu viðbrögð og vegna öryggis ríkisins.“

Í sömu skýrslu segir að ríkislögreglustjóri hafi á árinu 2006 gert tillögur um nauðsynlega eflingu búnaðar og þjálfunar. „Ástand búnaðar og þjálfunarmála hefur tekið litlum breytingum til batnaðar frá þeim tíma og því er efling þessara þátt orðið brýnna mál en áður.“

Annarri skýrslu skilaði Ögmundur til Alþingis á árinu 2012 en í henni segir: „Lögreglan verður einnig að vera það öflug að hún geti tekist á við óþekktar ógnir sem koma fyrirvaralaust upp. Lögreglukerfið þarf því að vera öflugt á sviði öryggismála og sveigjanlegt svo lögreglan hafi burði til þess að bregðast fyrirvaralaust við hættum sem ekki gera boð á undan sér.“

28 skammbyssur hjá LRH

Jón segir að því sé ekki um neina eðlisbreytingu að ræða. Eins og sjá megi á skýrslum ráðherra frá árinu 2012 eru öll embætti lögreglunnar þegar búin skammbyssum, og nokkur þeirra einnig rifflum og haglabyssum. Þannig hafi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu haft 28 skammbyssur til umráða á árinu 2012 og fimm haglabyssur. Lögreglan á Suðurnesjum hafi einnig haft yfir sjálfvirkum vopnum að ráða.

„Síðan er heldur ekki rétt að það sé búið að taka ákvörðun um að setja vopn í alla lögreglubíla. Hið rétta er að vopn eru að jafnaði geymd á lögreglustöðvum,“ segir Jón en tekur fram að einstakir lögreglustjórar á landsbyggðinni hafi á undanförnum árum tekið sjálfstæða ákvörðun um að hafa vopn í bílum. Hann bendir á að embætti lögreglunnar á landsbyggðinni geti náð yfir gríðarlega stór svæði og embættin séu fámenn.  „[Komi slík staða upp] þarf að sækja vopnin á lögreglustöð, ef menn eru ekki þar, og það getur tekið tíma. Það hefur sjálfsagt verið meginástæðan fyrir því að lögreglustjórar hafa tekið þessa ákvörðun.“

Hann segir að til skoðunar sé hjá umræddum lögreglustjórum hvort þeir vilji setja MP5 byssurnar í bílana til viðbótar við skammbyssurnar. „En það er algjörlega sjálfstæð ákvörðun þeirra og alveg ljóst að þær fara ekki í alla bíla.“

Aðspurður segir hann engin vopn að finna í bílum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og að engin ákvörðun hafi verið tekin um að vopnbúa þá. Ástæðan sé líklega sú að sérsveit ríkislögreglustjóra er á höfuðborgarsvæðinu og viðbragðstími hennar góður.

Létt vélbyssa af tegundinni MP5.
Létt vélbyssa af tegundinni MP5. Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert