Mannleg mistök í Kópavogi

Frá Kópavogi í morgun
Frá Kópavogi í morgun mbl.is/Árni Sæberg

Umferðin hefur gengið afar illa í Kópavoginum og eru dæmi um að fólk hafi verið tvær klukkustundir að komast leiðar sinnar í Kórahverfi og víðar í bæjarfélaginu. Sviðsstjóri umhverfissviðs Kópavogs, Steingrímur Hauksson, segir að mannleg mistök skýri þetta en ekki var byrjað að salta og sanda götur fyrr en um átta í morgun.

Steingrímur segir að það hefði átt að byrja að salta og sanda í nótt en mannleg mistök hafi valdið því að það var ekki gert fyrr en um áttaleytið í morgun. Enn sé verið að hreinsa götur en umferðin sé að færast í eðlilegt horf að nýju. 

Hann segir að Vatnsendahverfið sé enn erfitt, þar gangi umferðin mjög hægt en sé hins vegar ekki stopp líkt og var í morgun. Verið er að salta Vatnsendaveg frá Breiðholtsbrautinni og er leiðin upp brekkuna orðin greiðfær og verið er að salta leiðina niður brekkuna. Glerhált er einnig á Vífilsstaðavegi. 

Steingrímur segir að víða hafi bifreiðir verið skildar eftir en þess hafi hins vegar yfirleitt verið gætt að þær væru utanvegar þannig að ruðningstæki komast leiðar sinnar. 

Strætó gat ekki ekið um Lindahverfi, Vatnsendahverfi og Kórahverfi í morgun vegna ófærðar  og nú á tólfta tímanum var ekki enn byrjað að aka um Lindahverfi í Kópavogi á ný þar sem ekki þykir óhætt fyrir strætó að aka um hverfið. 

Samkvæmt upplýsingum frá Strætó eru allir vagnar fyrirtækisins á vetrardekkjum en búið var að undirbúa veturinn og því gripið til ráðstafana áður en ófærð skall á. Það sem skipti mestu hjá Strætó sé að hafa öryggi farþega í fyrirrúmi og því hafi tafir verið á aktri í morgun. 

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins hefur vaktin gengið ágætlega fyrir utan að það hefur tafið sjúkraflutninga hversu færðin er slæm í efri byggðum Kópavogs.

Vatnsendavegur í morgun
Vatnsendavegur í morgun mbl.is/Ómar Óskarsson
Frá Kópavogi í morgun
Frá Kópavogi í morgun Ljósmynd Páll Magnús Guðjónsson
Götur Kópavogs eru margar hverjar snævi þaktar og afar hálar.
Götur Kópavogs eru margar hverjar snævi þaktar og afar hálar. mbl.is/Lára Halla
Gatnamót Álfhólsvegar og Álfaheiðar. Ökumenn fara sér hægt, enda afar …
Gatnamót Álfhólsvegar og Álfaheiðar. Ökumenn fara sér hægt, enda afar hált. mbl.is/Lára Halla
Þessi ökumaður ætlaði upp Álfaheiði en snerist og hafnaði næstum …
Þessi ökumaður ætlaði upp Álfaheiði en snerist og hafnaði næstum á jeppanum sem lagt er í brekkunni. Þó var búið að sanda brekkuna. mbl.is/Lára Halla
mbl.is/Lára Halla
Umferðin hreyfðist vart í Hvarfahverfinu í morgun
Umferðin hreyfðist vart í Hvarfahverfinu í morgun mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina